Fara í efni
Mannlíf

Natan Dagur syngur aftur Lewis Capaldi lag

Natan Dagur Benediktsson og Ina Wroldsen, þjálfari hans í keppninni. Ljósmynd: The Voice.

Natan Dagur Benediktsson tekur annað kvöld þátt í lokaþætti norsku útgáfu The Voice söngkeppninnar á sjónvarpsstöðinni TV2. Fjórir söngvarar komust í lokaþáttinn, hver þeirra syngur eitt lag og eftir kosningu að því loknu verða tveir eftir. Þeir syngja sitt hvort lagið, ekki það sama og áður, og eftir aðra kosningu áhorfenda kemur í ljós hvor sigrar í keppninni.

Natan syngur lagið Lost On You sem skoski söngvarinn og lagahöfundurinn Lewis Capaldi samdi og gaf út árið 2019. Natan söng einmitt lagið Bruises eftir Capaldi í fyrstu umferð keppninnar, blindprufunum. Dómararnir voru þá nánast agndofa af hrifningu og einn þeirra táraðist eins og frægt varð.

Verði Natan annar þeirra sem keppa í súperúrslitum, eins og Norðmenn kalla keppni þeirra tveggja sem standa eftir í lokin, syngur hann lagið Half A Man með Dean Lewis, sem kom út á plötunni A Place We Knew árið 2019.

„Þetta eru uppáhaldslögin mín, bæði til þess að hlusta á og syngja. Ég tengi mjög sterkt við báða textana þannig að ég get sungið lögin frá hjartanum; get meint það sem ég syng,“ sagði Natan í samtali við Akureyri.net í dag.

Vert er að minna á að þótt þátturinn sé ekki sýndur í íslensku sjónvarpi geta Íslendingar kosið með því að fara inn á vefsíðu TV2.

Viðtal við Natan um The Voice ævintýrið birtist á Akureyri.net í fyrramálið. 

Til gamans eru hér myndbönd af lögunum tveimur, með upprunalegu flytjendunum

Lost On You

Half A Man