Mikil stemning við kirkjutröppurnar
Mikil stemning var við kirkjutröppurnar í hádeginu í dag þegar strákar úr landsliðinu í hópfimleikum gengu þar niður á höndum. Fjöldi fólks fylgdist með og hvatti þá til dáða.
Landsliðið var með sýningu í Íþróttahöllinni í kvöld og að henni lokinni var börnum og unglingum boðið á æfingu með landsliðinu.
Strákarnir brugðu á leik í kirkjutröppunum í því skyni að styrkja Pieta samtökin. Fólk gat heitið á strákana, og getur án efa enn, til styrktar Pieta, samtökum sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur.
„Við sjálfboðaliðar fögnum alltaf svona sjálfstæðu framtaki til styrktar fólki sem á um sárt að binda og þessir ungu menn eru greinilega með hjartað á réttum stað,“ segir á Facebook síðunni Ljósberar Pieta á Norðurlandi. Þaðan eru flestar meðfylgjandi mynda en ein af Facebook síðu Akureyrarbæjar.
Vert er að benda á reikningsnúmer Píeta samtakanna fyrir frjáls framlög: 0301-26-041041, kennitala 410416-0690