Fara í efni
Mannlíf

„Langar að eignast augnstýribúnað“

Þórunn Kristjánsdóttir, Ragnheiður Júlíusdóttir og Patrekur Örn Kristinsson hengja upp myndirnar á Glerártorgi.

Sýning var opnuð á Glerártorgi í gær á myndum sem fatlað fólk á Akureyri málaði með búnaði sem það stýrir með augunum. Ragnheiður Júlíusdóttir, forstöðumaður Skógarlundar, miðstöðvar virkni og hæfingar, segist vilja vekja athygli á því hverjir möguleikarnir eru með réttum búnaði – „og það er ekkert leyndarmál að okkur langar mikið til þess að eignast augnstýribúnað,“ segir hún við Akureyri.net. Umræddur búnaður kostar á bilinu 2,5 til 3 milljónir króna.

Búnaðurinn, sem myndirnar á sýningunni eru málaðar með, er fenginn að láni frá sérdeild Giljaskóla. „Búnaðurinn er mikilvægur og getur aukið lífsgæði fyrir marga eins og myn­dirnar á þessari sýningu leið í ljós.“

Aukin lífsgæði

Í Skógarlundi er boðið upp á atvinnu og hæfingatengda þjónustu fyrir einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir, 20 ára og eldri. Markmiðið er að stuðla að aukinni þátttöku í daglegu lífi, viðhalda og auka færni, veita tilbreytingu og upplifun ásamt auknum lífsgæðum.

Um 50 einstaklingar sækja þjónustu í Skógarlund annaðhvort fyrir eða eftir hádegi. Húsnæði Skógarlundar er skipt í átta starfsstöðvar sem eru: Skapandi starf, vinnuþjálfun, tölvur og rofar, smíðar og handverk, gagnaeyðing, hreyfing, skynörvun og reynsluboltar.

Allir sem koma í Skógarlund fara á tvær starfsstöðvar á dag. Markmiðið með því er að bjóða upp á fjölbreytt verkefni sem auka virkni, áhuga og þátttöku. Skipulagið er sett upp með myndrænum hætti fyrir alla sem þurfa. Það sýnir athafnir dagsins og í hvaða röð þær eru. Á föstudögum er val, sem einnig er sett upp með myndrænum hætti og hægt að velja t.d. bingó, söng, dans, keilu, dekur eða útivist.

Búnaðurinn skiptir sköpum

Ragnheiður segir mikilvægt að umhverfið í Skógarlundi sé skipulagt og fyrirsjáanlegt, skilaboð séu skýr og sjónræn og að unnið sé að því markvisst að efla sjálfstæði og tjáningu með öllum mögulegum tjáskiptaleiðum.

„Augnstýribúnaður hefur verið notaður með góðum árangri með einstaklingum sem hafa skerta hreyfifærni en hafa stjórn á augnhreyfingum. Í Öryggismiðstöðinni er fáanleg tölva með innbyggðum augnstýribúnaði og það eina sem einstaklingurinn þarf að gera er að horfa á tölvuskjáinn til að fá fram virkni,“ segir Ragnheiður.

Hún segir mikilvægt að finna leiðir fyrir einstaklinga til að tjá sig og augnstýribúnaður hafi skipt sköpum fyrir lífsgæði margra. Ekki sé alltaf hægt að segja til um það fyrirfram hvort einstaklingur geti notaða búnaðinn til tjáningar, það verði að prófa og hægt sé að þjálfa upp færni með fjölbreyttum leikjum í forriti sem heitir Look to learn.

Ragnheiður gleðst yfir velvilja þeirra sem vilja aðstoða. „Hermann Arason í Prentsmiðjunni styrkti okkur með því að prenta myndirnar og ef einhver vill fá nánari upplýsingar um sýninguna og verkin eða augnstýribúnaðinn má gjarnan hafa samband við mig,“ segir Ragnheiður. Netfang hennar er raggajul@akureyri.is og hún svarar í síma 8632884. 

Ein myndanna á sýningunni á Glerártorgi.