Fara í efni
Mannlíf

Lærdómsríkur og þroskandi tími

Natan Dagur Benediktsson og Ina Wroldsen, þjálfari hans í keppninni. Ljósmynd: The Voice.

Natan Dagur Benediktsson syngur í fjögurra manna úrslitum norsku útgáfu The Voice söngkeppninnar á sjónvarpsstöðinni TV2 í kvöld. Þetta er lokaþátturinn því kemur í ljós hver fagnar sigri.

„Þetta hefur verið hrikalega lærdómsríkt og þroskandi. Þegar ég hugsa til baka átta á mig á því að ég er allt annar nú en ég var í blindprufunni til að byrja með; hef skýrari stefnu um hvað ég vil í lífinu og hef meiri trú á því sem ég get gert. Mér finnst geggjað þegar maður hefur trú á draumum sínum,“ segir Natan Dagur við Akureyri.net. Hann renndi algjörlega blint í sjóinn í haust þegar ævintýrið hófst og mikla athygli vakti að hann hafði aldrei sungið opinberlega fyrr en í blindprufunni, fyrsta þættinum sem tekinn var upp!

Natan segist mjög gagnrýninn á sjálfan sig, sumum þykir hann reyndar ganga of langt í þeim efnum eins og fram kom í síðasta þætti. „Um leið og ég syng einn vitlausan tón eða missi af andardrætti gagnrýni ég sjálfan mig strax því flutningurinn var ekki fullkominn, eins og ég vildi. Ég vil að það sem sést á youtbue sé eins og það getur best orðið,“ segir hann.

Nei, hættu nú alveg!

Í síðasta þætti, eftir að Natan flutti lagið All I Want, sem írska hljómsveitin Kodaline sendi frá sér og gerði vinsælt fyrir nokkrum árum, hældu dómararnir honum á hvert reipi. „Þetta var stórkostlegt“ sagði þjálfarinn hans, Ina Wroldsen. Tom Stræte Lagergren – kallaður Matoma – sá sem grét af gleði þegar Natan kom fyrst fram í The Voice, endurtók leikinn í þættinum. Var tárvotur af hrifningu.

Þegar Natan sagði dómurunum að hann hefði í raun samt átt að geta gert sumt betur, greip Wroldsen fram í fyrir honum: Nei, hættu nú alveg! Sagði honum að brosa því frammistaðan hefði verið stórbrotin. Dómarinn Yosef Wolde-Mariam, þekktur rappari, nefndi þá að alltaf væri hægt að æfa sig betur og reyna að fullkomna ákveðin tækniatriði, en miklu meira máli skipti að syngja af tilfinningu. Að miðla tónlistinni þannig að hún hreyfði við fólki; það hefði Natan svo sannarlega gert þetta kvöld.

„Þegar fólk grætur yfir flutningnum veit ég að það er dýpt í því sem ég geri. Þetta var í annað skipti sem Matoma grætur hjá mér og töluvert verið talað um að hann sé alltaf grenandi, en það er þó alls ekki þannig!“

Geri mitt besta

Matoma nefndi í þættinum að hann þekkti vel Steve Garrigan, söngvara Kodaline, og gæti fullyrt að hann hefði orðið mjög stoltur af flutningi Natans þetta kvöld. „Ég fékk persónuleg videoskilaboð frá Garrigan í gegnum Matoma fyrir þáttinn, þar sem hann óskaði mér góðs gengis; sagði að þegar hann skrifaði lagið hefði það komið frá dýpstu hjartarótum og mér fannst ótrúlega gott að fá svona skilaboð frá stórstjörnu.“

Natan segist vel stemmdur fyrir kvöldið. „Ég mæti eins fullur sjálfstrausts og mögulegt er akkúrat núna. Ég er ekki með bullandi sjálfstraust, þá myndi ég hoppa yfir alla falska tóna og halda að ég væri frábær en ég er mjög krítískur á sjálfan mig eins og ég sagði áðan; ef ég geri ekki hlutina eins og ég ætlaði mér hugsa ég alltaf um að ég hefði átt að gera betur. Finnst ég ekki fullkominn, en ég reyni að fara á svið með það í huga sem hefur verið sagt við mig og reyni að gera mitt besta.“

Natan segir talað um að aldrei hafi sterkari hópur verið í úrslitum The Voice í Noregi en í ár. „Það er samt eiginlega ekki hægt að bera okkur saman; Erlend er kántrí söngvari, Sofie er með miklu kröftugri rödd en við hin en líka tæknilega góð og Maria Petra er mjög góð í að segja sögur í gegnum flutninginn.“

Heimsfrægð til góðs

Natan sagði við Akureyri.net þegar ævintýrið hófst að hann vildi verða heimsfrægur. „Það hefur ekkert breyst. Mig langar enn að verða heimsfrægur, ekki endilega fyrir frægðina heldur til að fá sem flesta til þess að hlusta á boðskapinn sem ég reyni að koma á framfæri. Með frægð koma fylgjendur og með fleiri fylgjendum get ég öðlast mátt til þess að koma einhverju góðu til leiðar, að breyta einhverju til góðs í heiminum.“

Sigurvegara The Voice er tryggður plötusamningur hjá alþjóðarisanum Universal Music. „Menn frá fyrirtækinu hafa talað við okkur öll og möguleiki er á því að fleiri en sigurvegarinn fái samning. Universal ákveður bara hvort samið verður við fleiri.“

Natan er algjörlega tilbúinn fyrir næstu skref, eftir að keppninni lýkur. „Ef plötufyrirtæki velja mig ekki fer ég á fullt að tala við þá menn í bransanum sem þegar hafa haft samband við mig, umboðsmenn og aðra, til að komast í stúdíó og koma út eigin lagi eins fljótt og hægt er.“

Uppáhaldslögin mín

Þáttur kvöldsins hefst klukkan 18.00 að íslenskum tíma og fyrri hlutanum ætti að ljúka um klukkan 20.00. Íslendingar geta kosið á heimasíðu TV2.

Í kvöld syngur Natan lagið Lost On You sem skoski söngvarinn og lagahöfundurinn Lewis Capaldi samdi og gaf út árið 2019. Natan söng einmitt lagið Bruises eftir Capaldi í fyrstu umferð keppninnar, blindprufunum.

Verði Natan annar þeirra sem keppa í súperúrslitum, eins og Norðmenn kalla keppni þeirra tveggja sem standa eftir í lokin, syngur hann lagið Half A Man með Dean Lewis, sem kom út á plötunni A Place We Knew árið 2019.

„Þetta eru uppáhaldslögin mín, bæði til þess að hlusta á og syngja. Ég tengi mjög sterkt við báða textana þannig að ég get sungið lögin frá hjartanum; get meint það sem ég syng,“ sagði Natan í samtali við Akureyri.net í gær.

Natan Dagur á æfingu í vikunni fyrir lokaþáttinn. Ljósmynd: The Voice.