Hrókerað bæði stutt og langt í kirkjunni
Töluverðar tímabundnar hrókeringar eiga sér nú stað í kirkjum á Akureyri og nágrenni.
Tveir prestar hins nýja Akureyrar- og Laugalandsprestakalls eru frá störfum, sr. Hildur Eir Bolladóttir vegna veikinda til áramóta og sr. Jóhanna Gísladóttir í barnsburðarleyfi fram á vor.
Sr. Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur, mun annast helgihaldið fram í firði fyrir sr. Jóhönnu og Eydís Ösp Eyþórsdóttir, starfsmaður Glerárkirkju, tekur að sér barnastarf og fermingarfræðslu þar fremra.
Biskupinn yfir Íslandi hefur farið þess á leit við sr. Stefaníu Steinsdóttur, prest í Glerárkirkju, að hún færi sig um set suður yfir á og leysi sr. Hildi Eir af næstu mánuðina. Auk þess mun sr. Þorgrímur Daníelsson, sóknarprestur á Grenjaðarstað, verða söfnuðunum hér á Akureyri innanhandar í þessum sérstöku aðstæðum. Hann mun til dæmis messa í Akureyrarkirkju nú á sunnudaginn og leysir af við guðsþjónustur í nokkur skipti í Glerárkirkju einnig.
Á meðan sr. Stefánía verður að störfum í Akureyrarkirkju mun Glerárkirkja njóta krafta sr. Odds Bjarna Þorkelssonar, prests á Möðruvöllum í Hörgárdal. Hann mun þjóna í Glerárkirkju til áramóta, jafnframt því að þjóna sínu prestukalli að einhverju leyti og sr. Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju, tekur þátt í því líka. „Hér er því bæði gefið og þegið,“ eins og segir á vef Glerárkirkju.
Nánari upplýsingar um þjónustu prestanna: hér í Akureyrarkirkju og hér í Glerárkirkju.
Séra Oddur Bjarni Þorkelsson og séra Þorgrímur Daníelsson.