Hermann Sigtryggsson níræður í dag
Æskulýðs- og íþróttafrömuðurinn Hermann Sigtryggsson fagnar 90 ára afmæli sínu í dag. Hann hefur komið víða við, en lengst var hann íþrótta- og tómstundafulltrúi Akureyrarbæjar eða frá árinu 1963 til 1996. Frá þeim tíma var hann fyrsti framkvæmdastjóri Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands og móttökustjóri hjá bænum til ársins 2001 þegar hann lét af störfum 70 ára að aldri. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar í dag.
Þar segir ennfremur: „Frá unga aldri starfaði Hermann að ýmsum félagsmálum, tók virkan þátt í íþróttum og lék knattspyrnu í öllum flokkum með KA og með ÍBA í meistaraflokki. Hann keppti í frjálsum íþróttum og átti nokkur Akureyrarmet í styttri hlaupum. Hermann hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir KA, ÍBA, Ferðamálafélag Akureyrar, Rótaryklúbb Akureyrar og Norræna félagið á Akureyri. Hermann átti sæti í æskulýðsráði ríkisins, í framkvæmdastjórn ÍSÍ og nefndum fyrir SKÍ og menntamálaráðuneytið svo eitthvað sé nefnt. Hermann sat í ýmsum nefndum fyrir Akureyrarbæ, til að mynda byggingarnefnd Skíðahótelsins og Íþróttahallarinnar.
Hermann var meðal stofnenda Andrésar Andar leikanna árið 1975. Hann starfaði fyrst við Skíðalandsmót Íslands á Akureyri árið 1946 og svo ótal sinnum um allt land eftir það í ýmsum hlutverkum, sem mótstjóri og í undirbúningsnefndum fyrir landsmótin. Hermann var mörgum sinnum fararstjóri fyrir ÍSÍ og Skíðasambandið á keppnisferðum erlendis og þ.m.t. á Ólympíuleikunum í Lillehammer í Noregi og Innsbruck í Austurríki.“
Akureyri.net óskar Hermanni innilega til hamingju með stórafmælið.