„Getum miklu meira en við höldum!“
Silja Jóhannesdóttir kom sá og sigraði á Íslandsmótinu í götuhjólreiðum fyrr í sumar, tiltölulega nýbyrjuð að æfa, 33 ára þriggja barna móðir. Að ekki sé talað um að hún veiktist illa af Covid síðastliðið haust. Hún hafði ekki mikla trú á sjálfri sér í fyrstu, en það átti sannarlega eftir að breytast. Ævintýrin gerast enn.
„Ég hef alltaf litið upp til íþróttafólks og mig hefur lengi dreymt um að geta sjálf staðið mig vel á því sviði en sá draumur hefur hingað til verið fjarlægur. Síðustu ár hafa snúist um að stofna fjölskyldu, klára háskólagráður og koma upp góðu heimili; ekki var mikið pláss eða tími fyrir einhver áhugamál og drauma!“ segir Silja.
Það var svo fyrir rúmum tveimur árum sem hún keypti sér fyrsta racer hjólið, sem svo er kallað; það eru skrýtnu hjólin með örmjóu dekkjunum sem margir kannast eflaust við. „Ég skráði mig á grunnnámskeið í götuhjólreiðum hjá Hjólreiðafélagi Akureyrar og fann fljótt að þetta ætti vel við mig. Ég bætti mig hratt og fljótlega var pikkað í mig og mér bent á að ég ætti að prófa að skrá mig í keppni.“
Kjánaleg hugmynd en vann oftast!
Silja segist hafa verið „drullufeimin“ og sér hafi í raun fundist hugmyndin hálf kjánaleg. „Að ég myndi skrá mig í keppni! En svo fór að ég endaði á verðlaunapalli í minni fyrstu almenningskeppni og kom þar sjálfri mér verulega á óvart. Sumarið eftir var sjálfstraustið orðið betra, ég skráði ég mig í fleiri mót, keppti bæði í almennings og B-flokki, og vann oftast. Ég lenti í öðru sæti í einni tímatökukeppni en hinar vann ég. Ég keypti mér betri racer þegar langt var liðið á sumarið og draumurinn um að verða íþróttamaður í elite flokki var orðinn aðeins sýnilegri,“ segir Silja. Elite er flokkur þeirra bestu.
„Um haustið kom svo Tryggvi Kristjánsson þjálfari til mín í einum þrektímanum á líkamsræktarstöðinni Bjargi og spurði hvort ég vildi ekki prófa að æfa markvisst um veturinn – og ég bara sló til! Sagði meira að segja upphátt við vinkonur mínar í pottinum eitt kvöldið að þetta væri það sem mig langaði að gera og að ég tryði að ég gæti það.“
Mjög veik eftir kórónuveirusmit
Silja æfði af miklum krafti allt þar til kórónuveiran bankaði upp á í nóvember í fyrrahaust. „Ég varð mikið lasin og missti allt úthald. Ég reyndi við hjólaæfingarnar en púlsinn fór upp í hámark strax í upphitun og lungun loguðu sem aldrei fyrr. Ég mætti í vinnu tæpum mánuði eftir greiningu og fékk að vinna styttri vinnudaga en var gjörsamlega búin þegar ég kom heim og svaf bara. Það voru liðnir tveir mánuðir áður en ég fór loksins að sjá bætingar aftur á hjólinu en þá var hausinn í raun löngu hættur við að taka þátt í keppni.“
Silja hugsaði með sér að kannski gæti hún keppt á næsta ári. „En þessi hindrun fékk mig reyndar til að leggja enn harðar að mér. Ég vildi gera allt sem ég gæti til að ná upp þreki og úthaldi, ekki bara til að geta hjólað heldur líka fyrir daglegt líf. Setningin Without struggle there is no progress veitir mér innblástur,“ segir hún; engar framfarir verða án þess að menn leggi hart að sér. Hún lét meira að segja húðflúra setninguna á sig fyrir nokkrum árum: Without struggle there is no progress. „Þetta var sannarlega verkefni sem ég ætlaði að yfirstíga og þegar kom að því að keppa skráði ég mig í fyrstu skiptin í B-flokkinn. Ég vann fyrstu keppnina og í endamarkinu var strax farið að skjóta á mig af hverju ég væri ekki í elite keppninni! Svo vann ég líka næstu keppni og sá þá að kannski væri ég bara í hörku formi þrátt fyrir allt. Mér fannst sú keppni heldur ekki nógu mikil áskorun, þetta var eiginlega of auðvelt.“
Risaskref
Þegar þarna var komið sögu bað hún um undanþágu hjá Hjólreiðasamandi Íslands til að færa sig á milli flokka á miðju keppnistímabili. Silja segir að sér hafi þótt það risaskref þegar hún skráði sig í elite keppni í fyrsta skipti í sumar. „Ég var í stresskasti allan daginn og markmiðin voru ekki háleit, fyrst og fremst að verða ekki skilin eftir í fyrstu brekkunni! Ég endaði hins vegar í fjórða sæti og sá að ég gæti alveg stefnt hærra næst – mig langaði á verðlaunapall.“
Hún segist hafa komið mjög vel búin undir Íslandsmótið. „Ég var búin að æfa vel og leggja á ráðin með liðsfélögunum, þjálfara þeirra og mínum. Daginn fyrir mótið keyrði ég alla brautina og sá keppnina fyrir mér; sá hvernig ég ætlaði að takast á við brekkurnar, sem voru mjög margar og brattar á köflum og sá hvernig ég ætlaði að vinna endasprettinn. Brautin var eiginlega sérsniðin fyrir mig, með krefjandi köflum, sem voru þó ekki langir, og góðum möguleika á endaspretti; ég hef oft átt mjög góðan endasprett. Sá eini sem ég hef tapað var fyrir einhverjum strákum í Eyjó 1x2 keppninni.“
Grét eftir að hún kom í mark
Dagurinn sem Íslandsmótið fór fram var draumi líkastur. „Ég átti minn besta dag og keppnin fór að mestu eins og ég sá fyrir mér. Þegar ég hafði rúllað yfir marklínuna missti ég algjörlega kúlið og bara grét! Fæ meira að segja tár í augun við að tala um þetta. Það var ÉG sem fékk sigurtreyjuna, bikarana og fæ að kalla mig besta á Íslandi í götuhjólreiðum. Ég sem er svo nýbyrjuð í þessu en ekki hinar sem hafa stefnt að þessu í mörg ár, ég sem fékk þetta bölvaða Covid fyrir nokkrum mánuðum.“
Silja segist aldrei hefðu farið út í hjólaævintýrið nema vegna mikils stuðnings allra á kringum hana og nefnir sérstaklega eiginmanninn, Jóhann Heiðar Friðriksson; „hann er aðdáandi númer eitt, hefur endalausa trú á mér og gaf mér rándýra racer hjólið mitt.“
Hún þakkar líka liðsfélögum sínum, Hafdísi Sigurðardóttur, Freydísi Hebu Konráðsdóttur og Silju Rúnarsdóttur. Hún hefði aldrei hellt sér út í keppni nema fyrir hvatningu þeirra og dugnaðar við að byggja upp það frábæra hjólasamfélag sem orðið er að veruleika á Akureyri. „Ég hefði heldur aldrei farið að æfa markvisst nema vegna þess að Tryggvi sagði mér að gera það. En ég hefði líka aldrei orðið Íslandsmeistari nema af því að ég trúði að ég gæti það!
Ég segi því að við eigum öll að halda áfram að peppa og styðja hvort annað en fyrst og fremst að hafa trú á okkur sjálfum! Við getum miklu meira en við höldum!“ segir Silja Jóhannesdóttir.