Fólk lætur breyta og bæta gömlu fötin
Á Litlu saumastofunni í Brekkugötu er í nógu að snúast. Þar er boðið upp á alhliða sauma- og viðgerðarþjónustu og verkefnin eru óþrjótandi, að sögn eigendanna. Á árum áður voru margar saumastofur á Akureyri en líklega er Litla saumastofan sú eina sem enn er í rekstri hér í bæ.
Það eru þær Svava Guðrún Daðadóttir og Anna Guðný Helgadóttir sem eiga Litlu saumastofuna. Þær hófu rekstur í febrúar 2014 í Strandgötu 11b en fluttu ári síðar í Brekkugötu 9 þar sem þær eru nú. Auk þeirra tveggja er ein kona í hálfu starfi. Þær Svava og Guðrún segja að það hafi verið mikið að gera frá því þær opnuðu og að það fari sífellt vaxandi.
Verkefnin eru fjölbreytt og má þar nefna viðgerðir og breytingar á fatnaði, uppsetning á handavinnu, gardínu- og rúmfatasaumur, tösku-, bakpoka og allskonar grófar viðgerðir. Fyrirtæki og verslanir leita til dæmis mikið til þeirra.
Þær sjá í auknum mæli að fólk lætur breyta og bæta gömlu fötin og að meira sé verslað á nytjamörkuðum. „Okkur finnst það hafa minnkað að fólk sé að panta erlendis frá, sé frekar að versla innanlands.“
En hvað með grímusaum?
„Á síðasta ári saumuðum við mikið magn af grímum í allskonar stærðum og gerðum, sumir komu með eigin efni og svo gerðum við grímur úr jólaefnum. Einnig gerðum við grímur fyrir fyrirtæki um allt land. Við mættum með fjölskylduna um helgar og sniðum og saumuðum grímur.“
Þær Svava Guðrún og Anna Guðný vilja koma á framfæri þökkum fyrir hvað fólk er duglegt að koma og nýta þjónustu þeirra.