Dekurdagar á Akureyri til sunnudags
Árlegir Dekurdagar á Akureyri hefjast í dag, fimmtudag, og standa fram á sunnudag.
„Hugmyndin er að vinkonur, vinir, systur, makar, fjölskyldur og vinnufélagar njóti þess að gera eitthvað skemmtilegt saman í bænum. Um leið er safnað fyrir Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis m.a. með sölu klúta, bleikra slaufa og framlagi fyrirtækja og einstaklinga,“ segir í tilkynningu.
Á síðasta ári söfnuðust um 4,2 milljónir til styrktar Krabbameinsfélagsins.
„Hægt er að velja úr fjölda viðburða sem gleðja hjartað þessa dekurhelgi. Verslanir og veitingastaðir bjóða mörg hver upp á ýmiskonar skemmtileg tilboð af þessu tilefni. Kvöldopnun verður á Glerártorgi á fimmtudagskvöld og í miðbænum föstudagskvöld,“ jafnframt í tilkynningu. „Mikið er um að vera í bænum þessa helgina og má meðal annars nefna tónleika og leiksýningar. Á Listasafninu eru fjölbreyttar sýningar og sama má segja um Minjasafnið á Akureyri.“