15 ára strákur pantaði sér matarvagn frá Kína
Finnur Bessi Finnsson er 16 ára Akureyringur sem hóf nám í Menntaskólanum á Akureyri í haust líkt og margir jafnaldrar hans. Ekkert óvenjulegt við það. Hins vegar er í frásögur færandi að Finnur Bessi pantaði sér fyrr á árinu, þá enn 15 ára, sérsmíðaðan, fimm metra matarvagn frá Kína og hyggst fara út í atvinnurekstur!
Bessabiti er vagninn kallaður. Þar verða steiktir hamborgarar og franskar kartöflur, framreiddar pylsur og sitthvað fleira þegar fram líða stundir. „Nafnið kom eiginlega á undan öllu öðru; mér fannst það svo flott að ég gat ekki annað en farið út í þetta!“ segir athafnamaðurinn ungi við Akureyri.net, þar sem hann vinnur við að gera vagninn kláran, ásamt Stellu Baldvinsdóttur kærustu sinni, á verkstæði Finns ehf við Óseyri. Faðir hans, Finnur Aðalbjörnsson verktaki, ræður þar ríkjum.
„Ég var oft búinn að tala um það við stjúppabba minn, aðallega í gríni, að fara út í eitthvað í þessum dúr. Svo ákvað ég bara að gera þetta!“ segir Finnur Bessi. „Ég fann kínverskt fyrirtæki á netinu sem smíðar svona vagna, sendi póst og ræddi svo við sölukonu. Vagninn er sérsmíðaður, úr ryðfríu stáli, og ég fékk að hanna hann nákvæmlega eins og ég vildi.“ Hann segist afar ánægður með útkomuna.
Vill hafa nóg fyrir stafni
„Pabba leist nú ekkert allt of vel á hugmyndina fyrst!“ segir Finnur Bessi. „En eftir að hafa hugsað málið gaf hann samþykki sitt.“
Finnur yngri lætur verkin greinilega tala. Þegar samþykki föður hans og móður lá fyrir pantaði hann vagninn, þrjá og hálfan mánuð tók að smíða gripinn og aðra þrjá að koma honum heim til Akureyrar. Það var snemma í þessum mánuði að gámurinn var opnaður og vagninn blasti við.
„Ég fékk hann á þrjár milljónir með sendingarkostnaði,“ segir Finnur Bessi aðspurður. Hann hefur verið duglegur að vinna og fjármagnar ævintýrið sjálfur. Segist hafa gaman af því að hafa nóg fyrir stafni og á ekki langt að sækja það. Finnur Bessi fór t.d. fyrir hópi stráka sem tók að sér, gegn vægu gjaldi, að moka snjó fyrir fólk í fyrravetur en „síðustu sumur hef ég unnið hjá pabba við að helluleggja. Ég ætlaði að kaupa mér bíl en hætti við það og ákvað svo að kaupa vagninn í staðinn.“
Fín leið til að læra bissness
Faðir Finns Bessa, er kunnur verktaki á Akureyri og ekki síst í sviðsljósinu um þessar mundir vegna Skógarbaðanna í Vaðlaheiðinni, gegnt Akureyri, sem Finnur eldri og eiginkona hans hyggjast opna í febrúar.
Bessabiti mun standa við Skógarböðin þegar þar að kemur. Finnur Bessi og Stella eru bæði í 1. bekk MA, á félagsbræðibraut, og hann segir viðskiptin varla fara á fullt fyrr en eftir að skóla lýkur í vor en vagninn verði að sjálfsögðu eitthvað opinn fyrr.
Finnur hefur einnig í hyggju að ferðast um með vagninn og bjóða fólki kræsingar annars staðar. Hvar það verður kemur í ljós. „Mig hefur alltaf langað að gera eitthvað svona sjálfur. Ekki endilega að vera með matarvagn en það hentaði núna – enda hef ég mjög gaman af því að elda og brasa oft við það heima. Ég held það sé fín leið til að læra bissness að gera eitthvað svona sjálfur,“ segir athafnamaðurinn ungi.
Hvað má bjóða þér? Finnur Bessi æfir sig fyrir sumarið!
Finnur Bessi og kærastan hans, Stella Baldvinsdóttir, gera vagninn kláran.