Fara í efni
Fréttir

Vilja sameinast um kaup á 1300 tonnum áburðar

Bændur á 65 búum í Suður-Þingeyjarsýslu hafa í sameiningu leitað tilboða í áburð fyrir vorið. Með því vilja þeir ná fram hagræðingu, bæði fyrir býlin og seljendur, að sögn Ara Heiðmans Jósavinssonar, bónda á Miðhvammi í Aðaldal. Verði sameiginleg kaup að veruleika getur það haft mikil áhrif, segir Ari.

Það eru Búnaðarsamband Suður-Þingeyinga og Félag þingeyskra kúabanda sem standa fyrir útboðinu. Bændurnir vilja kaupa alls 1300 tonn áburðar. Þeir fara fram á tilboð um verð, flutning heim á hlað og greiðslukjör. Í útboðinu kemur fram að mat verði lagt á tilboðin út frá verði, innihaldi áburðar og annarra þátta, en bændurnir áskilja sér rétt til að hafna öllum tilboðum.