SBA og Linda fengu viðurkenningu frá MN
SBA Norðurleið var valið Fyrirtæki ársins 2021 í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Það var tilkynnt á uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi á dögunum. „Þessa viðurkenningu frá fyrirtæki sem hafa skapað sér sterka stöðu á markaði og hafa unnið að uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun í ferðaþjónustu á Norðurlandi. SBA Norðurleið sérhæfir sig í útleigu hópferðabifreiða og er eitt það stærsta sinnar tegundar á Íslandi,“ segir m.a. í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands (MN).
Linda María Ásgeirsdóttir fékk viðurkenningu fyrir störf í þágu ferðaþjónustu, viðurkenningu sem veitt er einstaklingi „sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Linda María hefur unnið af heilindum fyrir ferðaþjónustuna á Norðurlandi í fjölda ára. Hún hefur verið í forsvari fyrir Ferðamálafélag Hríseyjar og rekur núna veitingastaðinn Verbúð 66 í Hrísey,“ segir um Lindu Maríu á vef MN.
„Einnig hefur hún setið í svæðisráði Hríseyjar fyrir Akureyrarbæ og starfað með okkur á Markaðsstofunni í hópi ferðamálafulltrúa. Linda María hefur unnið þétt með fyrirtækjum og einstaklingum sem byggja upp ferðir til Hríseyjar og haldið utan um skipulag ferða og heimsókna með ýmsum aðilum í gegnum árin. Hún á því stóran þátt í að halda úti ferðaþjónustunni í eynni en mjög mikilvægt er fyrir okkur á Norðurlandi að gestir okkar geti farið þangað í heimsókn og notið góðar þjónustu og veitinga.“
- Sproti ársins er 1238: Battle of Iceland í Skagafirði. „Þessi viðurkenning er veitt ungu fyrirtæki sem hefur skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi. 1238: Battle of Iceland var stofnað árið 2019 og býður uppá frábæra aðstöðu fyrir bæði minni og stærri hópa.“
- Í ár var ákveðið að bæta fjórðu viðurkenningunni við. Hvatningarverðlaun ársins 2021 voru veitt Fairytale at Sea. „Fyrirtækið var stofnað árið 2018 og býður upp á þjónustu sem byggir vel undir ímynd Norðurlands og er orðið þekkt meðal innlendra og erlendra ferðamanna fyrir einstaka upplifun.“
Nánar hér í máli og myndum á vef Markaðsstofu Norðurlands.