Neikvæð niðurstaða um 625 milljónir
Áætlað er að rekstrarniðurstaða Akureyrarbæjar verði neikvæð um 625 milljónir króna á næsta ári en síðan er gert ráð fyrir batnandi afkomu til ársins 2025 og að tekjur hækki meira en gjöld. Þetta kemur fram í fjárhags- og framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins 2022 til 2025 sem samþykkt var samhljóða í bæjarstjórn í gær.
Gert er ráð fyrir að niðurstaðan verði jákvæð um 167 milljónir árið 2023, um 600 milljónir 2024 og að rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins verði jákvæð um rúmlega einn milljarð króna árið 2025.
Líkt og undanfarin ár fer langmest fé til fræðslumála á næsta ári, rúmir níu milljarðar króna, og tæpir fimm milljarðar í félagsþjónustu; um 66% af útgjöldum aðalsjóðs sveitarfélagsins renna til þessara tveggja málaflokka.
Ítarlegar upplýsingar um áætlunina eru hér á vef Akureyrarbæjar.