Fara í efni
Fréttir

„Mögnum það sem á svæðinu býr“

Sigríður Ólafsdóttir eigandi Mögnum á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Fyrirtækið Mögnum á Akureyri er eina ráðningarþjónustan utan höfuðborgarsvæðisins. Sigríður Ólafsdóttir, sem stofnaði fyrirtækið 2017, segir að undanfarið hafi verið líflegt á vinnumarkaðnum og töluvert sé um að fyrirtæki ráði fólk í vinnu um þessar mundir.

Sigríður – sem kallar sig alltaf Siggu – starfaði hjá Capacent í 17 ár, var m.a. útibússtjóri fyrirtækisins á Akureyri og sinnti alls konar ráðgjöf á fyrirtækjamarkaði. „Ég ákvað að sölsa um og stofna eigið fyrirtæki, þar sem ég er að sinna markþjálfun, fræðslu, ráðgjöf, held námskeið og vinnustofur, geri úttektir og allt mögulegt annað sem snýr að því að reka heilbrigt fyrirtæki,“ segir hún í samtali við Akureyri.net.

Fram úr björtustu vonum

„Svo æxluðust hlutir þannig að Capacent, sem var með ráðningarþjónustu á Akureyri, varð gjaldþrota í Covid. Mér finnst mikilvægt að svæðið sé sjálfbært í sem flestu; ég hef áralanga reynslu af starfsmannamálum og ráðningum, og ákvað þess vegna að bæta því við hjá mér.“

Eitt ár er nú síðan Sigga ákvað að gera þá tilraun, eins og hún orðar það, að bjóða upp á ráðningarþjónustu; hún vildi komast að því hvort markaðurinn treysti frumkvöðli eins og henni í þeim málum. „Mín reynsla er sú að hann geri það,“ segir hún. „Þetta hefur reyndar farið fram úr björtustu vonum þótt ég sé viss um að enn séu ofboðslega mikil tækifæri fyrir hendi og allt of margir sem vita ekki af því að ég sé til!“

Fjöldi starfa aldrei auglýstur

Spurð hvort mikið sé að gerast á vinnumarkaðnum svarar Sigga því til að það sé afstætt, „en það hefur verið líflegt. Hátt hlutfall starfa sem ráðið er í er aldrei auglýst, sem fólk gerir sér sennilega ekki grein fyrir. Ég er með vel á þriðja hundrað manns á skrá hjá mér; einn öngullinn í sjóinn, þegar fólk er í atvinnuleit eða vill fylgjast með, er einmitt að skrá sig hjá ráðningarstofu, og þrátt fyrir krefjandi tíma hefur verið líf á markaðnum. Komið hefur fram hjá Vinnumálastofnun að vel gangi að koma fólki af atvinnuleysisskrá hér á svæðinu, fyrirtæki eru ýmist að stækka vegna aukinna verkefna eða eru farin að horfa út fyrir kassann; horfa til lengri tíma og farin að velta því fyrir sér hvernig fólk það vanti í vinnu þegar tækifærin aukast á ný.“

Enginn býður jafn fjölbreytta þjónustu

Margar ráðningarstofur eru starfandi í Reykjavík en Mögnum er sú eina utan höfuðborgarsvæðisins sem fyrr segir. „Mögnum er eina staðbundna fyrirtækið á svæðinu með viðlíka þjónustu fyrir vinnustaði í tengslum við stjórnun og mannauðsmál, og ég fullyrði að enginn hér býður upp á jafn fjölbreytta þjónustu og ég.“

Sigríður hefur starfað ein til þessa, en segir senn tímabært að fyrirtækið stækki „til að geta þjónustað Norðausturland enn frekar. Þrjóskan í mér hefur haldið þessu gangandi, nú ég er komin á þann stað að markaðurinn sýnir fyrirtækinu mikinn áhuga og margir vilja frekar sækja þjónustu í heimabyggð vegna þess að þeir vita að þá heldur peningurinn áfram í hringiðunni hér.“

Slagorð Sigríðar allt síðan hún stofnaði Mögnum er Mögnum það sem í okkur býr svo við eflumst sem við sjálf! Og hefur svo yfirfært það á svæðið með Mögnum það sem á svæðinu býr svo við eflumst sem samfélag. Sannarlega göfugt og fallegt.