Mikill rekstrarvandi SAk – geðdeildum og Kristnesi lokað í fimm vikur í sumar
Gríðarlegur rekstrarvandi blasir við á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk), ákveðið hefur verið að draga verulega úr starfsemi og og loka ákveðnum deildum í sumar. Þetta kom fram í jómfrúrræðu Hildu Jönu Gísladóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar, á Alþingi í gær. Hilda situr á þingi þessa viku í fjarveru Loga Einarssonar.
Hilda Jana sagði stjórnendur SAk telja að 550 milljónir króna vanti upp á reksturinn til þess að starfsemin gæti orðið eðlileg á árinu.
Hún taldi upp nokkur atriði sem ákveðið hefur verið að grípa til í sumar vegna fjárskorts
- Loka barna- og unglingageðdeild í 5 vikur í sumar og sinna aðeins bráðaþjónustu
- Loka dag- og göngudeildarþjónustu geðdeildar í 5 vikur í sumar og sinna aðeins bráðaþjónustu
- Loka öldrunar- og endurhæfingardeild við Kristnesspítala í 5 vikur í sumar
- Draga verulega úr starfsemi almennu göngudeildarinnar og skurðstofu – meira en áður hefur verið gert
- Draga enn einu sinni úr viðhaldi húsnæðisins.
„Þetta er þó aðeins dropi í hafið miðað við núverandi rekstrarstöðu og líklegt að grípa þurfi til mun viðameiri ráðstafana," sagði Hilda Jana.
„Sjúkrahúsið á Akureyri er ekki aðeins varasjúkrahús landsins heldur hreinlega hornsteinn í heilbrigðisþjónustu í landshlutanum og skiptir gríðarlega miklu máli fyrir öryggi, lífsgæði og samkeppnishæfni landshlutans,“ sagði varaþingmaðurinn.