Fara í efni
Fréttir

Lyftan tekin í notkun um miðjan febrúar

Stólalyftan Fjarkinn fyrir miðri mynd, sú nýja er vinstra megin. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Stefnt er að því að nýja stólalyftan í Hlíðarfjalli, sem skíðamenn hafa beðið eftir í nokkur ár, verði formlega tekin í notkun um miðjan næsta mánuð. 

Upphaflega stóð til að lyftan yrði tilbúin til notkunar í desember árið 2018 en framkvæmdir á svæðinu gengu hægar en gert var ráð fyrir og síðan settu alls kyns atriði strik í reikninginn.

Málið var til umfjöllunar í bæjarráði Akureyrar í gær. Í fundargerð segir þetta um lyftumálið:

„Rætt um stöðu mála í Hlíðarfjalli. Guðríður Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs og Brynjar Helgi Ásgeirsson forstöðumaður Hlíðarfjalls sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð felur forstöðumanni Hlíðarfjalls í samstarfi við sviðsstjóra umhverfis- og mannvirkjasviðs að undirbúa formlega opnun nýrrar lyftu og er stefnt að opnun um miðjan febrúar ef veður leyfir. Bæjarráð leggur jafnframt áherslu á góða þjónustu og bættar merkingar á gönguskíðasvæði Hlíðarfjalls.“

Margir hlakka til þessa nýja möguleika í fjallinu; skíðamenn komast töluvert hærra en hingað til, upp á svokallaða Fjallkonuhæð, sem er liðlega þúsund metrum yfir sjávarmáli.