Fara í efni
Fréttir

Leiðin okkar allra – Kirkjuvarpið

Ljósmynd: Völundur Jónsson

Í fyrri viku fór í loftið fyrsta sería nýs hlaðvarpsþáttar sem kallast Leiðin okkar allra.  Þátturinn er gefinn út af Kirkjuvarpi Þjóðkirkjunnar og spyrlar eru prestarnir Ása Laufey Sæmundsdóttir og Eyfirðingurinn Bolli Pétur Bollason, fyrrverandi prestur í Laufási. Umsjónarmaður hlaðvarpsins er Arnaldur Máni Finnsson.

„Þættirnir draga nafn af innihaldsríku ljóði Einars Georgs Einarssonar og lagi Þorsteins Einarssonar, Leiðin okkar allra, en Þorsteinn ljáði hlaðvarpinu einnig nýja útgáfu af laginu fyrir inngang og stef þáttarins. Einstaklega viðeigandi og sterka útgáfu,“ segir á vef Þjóðkirkjunnar.

Nýjasti þátturinn kallast,Verði ljós, elskan. „Til hátíðarbrigða fá Ása og Bolli skáldið Soffíu Bjarnadóttur til sín til að grufla í ljósinu, sannleikanum og fegurðinni með henni. Þau ræða skrif og skáldskap, skáldskap sem veruleika og reynslu, uppsprettu innblástursins – aðferð skrifa sem verkfæri heilunnar og lífsins göngu frá ljósi til ljóss, í gegnum skynvillur skóga,“ segir í kynningu. „Tilefnið er vissulega nýútkomin ljóðabók Soffíu, Verði ljós, elskan – sem bókaforlagið Angústúra gefur út. Soffía er verkefnastjóri bókmennta hjá Bókasöfnum Reykjavíkur, skáld og kennari í ritlist, með meistaragráður í bæði ritlist og bókmenntafræði. Hún á tvö börn, Emil og Líneik Þulu og býr í Reykjavík.“

Smellið hér til að hlusta á þættina á Spotify

Nánari upplýsingar hér um Kirkjuvarpið