Klukku-tíminn liðinn á Akureyri
Skilti með upplýsingum um bílastæðaklukkur í miðbæ Akureyrar hafa verið fjarlægð og er það fyrirkomulag þar með ekki lengur í gildi. Brátt þarf að greiða á ný fyrir að leggja í bílastæði. Gömlu, góðu stöðumælarnir voru fjarlægðir sumarið 2005, gjaldtaka afnumin og klukkurnar teknar í notkun, en nú er sá klukku-tími að baki.
Unnið er að uppsetningu nýrra skilta og merkinga í miðbænum vegna gjaldskyldu á bílastæðum og undirbúningur rafrænna greiðslulausna á lokametrunum, að því er segir á vef sveitarfélagsins.
- Tvö ný gjaldsvæði verða í miðbæ Akureyrar og er gjaldskyldutími kl. 10.00 til 16.00 virka daga.
- Í stæði P1 kostar 200 kr. að leggja í eina klukkustund; það á við um svæðið sem er bleikt á meðfylgjandi mynd, til dæmis stóra bílastæðið á milli Skipagötu/Hofsbótar og Glerárgötu.
- Í stæði P2 kostar 100 kr. að leggja í eina á klukkustund. Það eru stæði merkt með bláum lit á myndinni.
- Afmörkuð bílastæði innan gjaldsvæðanna, samsíða götum, eru með 2 klst. hámarkstíma og eru slík tímabundin gjaldsvæði merkt með skiltum.
- Þrír greiðslustaurar verða í miðbænum; við Skipagötu, Túngötu (norðan við Landsbankann) og Gilsbakkaveg.
- Stæðiskort fyrir hreyfihamlaða veitir heimild til að leggja í sérmerkt bílastæði og í gjaldskyld bílastæði án endurgjalds.
- Um 600 gjaldfrjáls bílastæði eru í og við miðbæinn, þau eru mark með dökkgrænum lit á myndinni.
- Íbúar með lögheimili á tilteknum svæðum í miðbænum sem hafa ekki aðgang að bifreiðastæði eiga kost á rafrænu bílastæðakorti. Gjald fyrir slík íbúakort er 6.000 kr. á ári.
- Samkvæmt nýju bílastæðakerfi verða tvö fastleigusvæði í miðbænum. Á svæði F1 (við Skipagötu og Hofsbót) er gjaldið 12.000 kr. á mánuði og á svæði F2 (við Túngötu) er það 6.000 kr. á mánuði.
Gjaldtakan verður auglýst á næstu dögum, þegar allar merkingar verða komnar á sinn stað og hægt verður að nota greiðsluöpp; fólki er bent á að kynna sér þjónustu tveggja appa, EasyPark og Parka en bent er á að ekki sé búið að virkja þau. Gefinn verður aðlögunartími og ekki lagðar á stöðumælasektir fyrr en allur búnaður er kominn í notkun, þar með taldir þrír greiðslustaurar, sem eru væntanlegir í lok febrúar.