Fara í efni
Fréttir

Hildigunnur sest í forstjórastólinn

Bjarni Jónasson og Hildigunnur Svavarsdóttir í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Hildigunnur Svavarsdóttir tók í dag við starfi forstjóra Sjúkrahússins á Akureyri af Bjarna Jónassyni. Síðasti vinnudagur Bjarna var í gær en hann mætti á „gamla“ vinnustaðinn í morgun til að afhenda Hildigunni lyklavöldin og óska henni formlega velfarnaðar í starfi.

Hildigunnur, sem síðustu ár hefur verið framkvæmdastjóri hjúkrunar á Sjúkrahúsinu á Akureyri, er fyrsta konan sem gegnir embætti forstjóra stofnunarinnar. Tvö sjúkrahús eru á Íslandi, á Akureyri og í Reykjavík, og sjö heilbrigðisstofnanir og af níu forstjórum eru nú þrjár konur, að sögn Hildigunnar. 

„Allt er orðið rafrænt en ég fann hér í skúffunni forláta lykil; ég tel að þetta sé lykillinn að sjúkrahúsinu – sem gengur að öllu. Ég afhendi þér hann til varðveislu og vona að dyr sjúkrahússins standi öllum þeim opnar sem þurfa á þjónustu hans að halda, ætíð og ávallt,“ sagði Bjarni í morgun.

Hildigunnur sagðist taka við góðu búi. „Það verður eftirsjá af þér úr þessum stóli en ég er afskaplega glöð að þú sért að hefja nýtt tímabil í lífinu, nýtt æviskeið, og óska þér, frúnni og fjölskyldunni allri velfarnaðar,“ sagði nýi forstjórinn.

Auk lykilsins afhenti Bjarni eftirmanni sínum tvö hefti. „Þetta er sem sagt lykill, og hér eru lykilplögg; framtíðarsýn spítalans sem þú þekkir auðvitað mjög vel, því við þurfum að vita hvert við ætlum að fara, annars komumst við aldrei á leiðarenda. Svo er hér starfs- og rekstraráætlun, sem þú þekkir reyndar líka vel; það er mikilvægt að halda sig innan þeirrar áætlunar, þá gengur okkur betur,“ sagði Bjarni

Bjarni Jónasson og Hildigunnur Svavarsdóttir á skrifstofu forstjóra Sjúkrahússins á Akureyri í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.