Færðu barnadeild SAk og Grófinni gjafir
Barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri og Grófin - geðrækt fengu í dag gjafir frá Styrktarsjóði Elko. Sjóðurinn gefur árlega til góðra málefna.
Haukur Hergeirsson, verslunarstjóri Elko á Akureyri, afhenti Aðalheiði Guðmundsdóttur, forstöðuhjúkrunarfræðingi á barnadeild SAk, Play Station 5 tölvu ásamt leikjum, stýripinna og heyrnartóli.
„Þetta kemur sér mjög vel. Í fyrra gaf Elko okkur tvær Nintendo Switch tölvur sem voru afar kærkomnar; þetta eru mjög heppileg leikföng fyrir börn þegar þau eru lasin,“ sagði Aðalheiður í dag.
Þá afhenti Hjörleifur Helgi Jónsson, tæknimaður hjá Elko, Ingu Maríu Ellertsdóttur, stjórnarformanni Grófarinnar, SodaStream tæki og skjávarpa. „Þetta á eftir að nýtast okkur frábærlega,“ sagði Inga María í dag.
Hjörleifur Helgi Jónsson, tæknimaður hjá Elko, og Inga María Ellertsdóttir, stjórnarformaður Grófarinnar.