Akureyrarbær rekur skíðasvæðið í vetur
Ákveðið hefur verið að Akureyrarbær sjái um rekstur Hlíðarfjalls á komandi vetri. Rekstur útivistarsvæðisins var boðinn út í sumar en aðeins eitt tilboð barst, það þótti ekki fullnægjandi og var því hafnað.
Stjórn Hlíðarfjalls hefur því ákveðið að reksturinn í vetur verði óbreyttur en þó er mögulegt að einstaka þættir verði boðnir út, til dæmis skíðakennsla, veitingarekstur, snjótroðsla og skíðaleiga.
Sveitarfélagið ákvað í sumar að bjóða út allan rekstur svæðisins í Hlíðarfjalli og ráð var gert fyrir samningi til þriggja ára til að byrja með, með möguleika á framlengingu um eitt ár í tvígang – fimm ár alls.
Akureyrarbær hefur rekið skíðasvæðið að öllu leyti frá upphafi þar til á síðasta ári að veitingasala og skíðakennsla voru boðin út. Til stóð að sá sem samið yrði við sæi um allt varðandi svæðið meðan á skíðavertíðinni stæði, auk þess sem viðkomandi gæti boðið upp á einhvers konar aðra starfsemi yfir sumartímann.