Á Akureyri eru 5 cm af hjólastígum á íbúa
Margt er líkt með Óðinsvéum í Danmörku og Akureyri, segir Guðmundur H. Sigurðarson, pistlahöfundur Akureyri.net og framkvæmdastjóri Vistorku, í pistli dagsins. „Í þessum tveimur bæjum þá er eins og gefur að skilja líka ansi margt ólíkt, tökum dæmi: Í Óðinsvéum eru 2,5 metrar af hjólastígum á hvern íbúa, á Akureyri eru 5 sentimetrar af hjólastígum á hvern íbúa. Árið 1998 var Óðinsvé tilnefnd hjólreiðabær Danmerkur en frá því fyrir 1980 hefur áherslan á hjólreiðar sem samgöngumáta verið skýrt mótuð í stefnu bæjarins. Samkvæmt upplýsingum úr hjólreiðaáætlun Óðinsvéa frá 2015 kemur fram að 36% íbúa hjóluðu til vinnu. Markmið áætlunarinnar var að hækka þetta hlutfall upp í 45% á þremur árum, meðal annars með lagningu svokallaðra supercykelstie eða ofurhjólreiðastíga. Samkvæmt nýlegum ferðavenjukönnunum á Akureyri fara 85% háskólanema á bíl í skólann og 57% framhaldsskólanema,“ segir Guðmundur.
„Akureyri hefur alla burði til að verða fyrirmyndabær að öllu leyti, ekki síst í umhverfismálum enda höfum við staðið okkur ágætlega hingað til. En við getum gert svo miklu betur. Ástæðan fyrir því að Akureyringar eiga Íslandsmet í flokkun lífræns úrgangs er sú að framsýnt fólk reisti Moltu. Ástæðan fyrir því að hátt hlutfall íbúa Óðinsvéa hjóla allra sinna ferða er sú að framsýnt sveitarstjórnarfólk lét sér ekki nægja að tala um hjólastíga heldur lét leggja þá. Það skiptir því máli að vera með skýra pólitíska stefnu og hrinda henni í framkvæmd.“
Smelltu hér til að lesa pistil Guðmundar