Fara í efni
Fréttir

20 milljarða kostar að reka bæjarfélagið en fólksbíla bæjarbúa 19 milljarða

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Akureyringar eiga fólksbíla að verðmæti 47 milljarða króna. Rekstur þeirra kostar bæjarbúa um 19 milljarða króna á ári, miðað við forsendur Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Til samanburðar kostar rekstur Akureyrarbæjar 20 milljarða króna á ári – þar af rekstur leik- og grunnskóla níu milljarða. Þetta kemur fram í grein sem Guðmundur Haukur Sigurðarson, framkvæmdastjóri Vistorku birti á vef félagsins.

Guðmundur bendir á mörg afar áhugaverð atriði í greininni:

  • „Ef við stillum upp dæmi þar sem hjón eru með samtals útborguð laun upp á 900.000 krónur á mánuði og miðum við rekstrargreiningar bifreiða frá FÍB og Íslandsbanka þá fóru öll laun hjónanna í janúar og 30% af laununum í febrúar bara í bílinn og ef þau reka tvo bíla hafa öll launin hingað til á þessu ári farið í reka bílana tvo.“
  • Á Akureyri eru 80 bílar á hverja 100 íbúa og bendir flest til þess að ferðavenjur breytist hægt, jafnvel þótt í því felist mesti ávinningurinn. Til samanburðar eru 32 bílar á hverja 100 íbúa í Zurich í Sviss. Það má því segja að þó að orkuskiptin séu á réttri leið á Akureyri benda þessar tölur til þess að ferðavenjurnar breytist lítið.
  • Með orkuskiptum í samgöngum og breyttum ferðavenjum getur samfélagið lækkað árlegan orkukostnað um 3,5 milljarða og aukið tekjur eigin orkufyrirtækja (Norðurorku og Fallorku) um 500 milljónir króna.
  • Endalok olíunnar á Íslandi þegar verið ákveðin. Það þýðir að á næstu árum munu öll kaup á orku í samgöngum á Akureyri færast frá olíuríkjum yfir til Norðurorku og Fallorku (sem bæði eru í eigu Akureyringa). Við þessi skipti mun samgöngukostnaður samfélagsins í heild lækka um marga milljarða á ári og um leið styrkist rekstur innlendra dreifi- og orkufyrirtækja.
  • Margt skýrir stóran fólksbílaflota á Akureyri og þessa miklu notkun innanbæjar; samgöngur milli landshluta, veðrið, brekkurnar, ófullnægjandi stígakerfi, lágt þjónustustig almenningssamgangna, hátt þjónustustig fyrir fólksbílinn og gott aðgengi að bílastæðum um allan bæ.
  • Samkvæmt nýlegum samgöngukönnunum eru um 57% af ferðum nemenda í MA og VMA á Akureyri til og frá skóla á einkabíl og á veturna er 81% ferða Akureyringa til og frá vinnu á einkabíl.
  • Rafbíll hefur marga kosti umfram bensínbíl en er þó versta orkuskiptalausnin í samgöngum innanbæjar enda er hann með stærra framleiðslukolefnisspor en bensínbíll, er dýrasta samgöngutækið og þarf sama pláss í bæjarlandinu og bensínbíll.

Guðmundur bendir á að Vistorka hefur sett upp vefsíðu sem kallast SKREF og snýst um hvernig hægt er að draga úr notkun á fólksbílnum með breyttum ferðavenjum. Auknar hjólreiðar, ganga og almenningssamgöngur eru auðveldasta leiðin til að minnka eldsneytisnotkun og útblástur frá samgöngum. Slíkt stuðlar einnig að aukinni hreyfingu og bættri heilsu.

„Einfaldast er að minnka óþarfa bílferðir þar sem vegalengdir eru viðráðanlegar. Allt of margir ferðast um í einkabílum stuttar vegalengdir sem auðvelt væri að dekka með göngu eða hjólreiðum. Þessu þarf að breyta. Ein hugarfarsleg hindrun er annars vegar ofmat á ferðatíma göngu og hjólreiða og hins vegar vanmat á ferðatíma bílferða. KORTER er tæknilausn Vistorku og Orkuseturs utan um alþjóðlega hugmyndafræði sem snýst um að allir íbúar geti fullnægt flestum þörfum sínum í stuttri göngu- eða hjólaferð frá heimili sínu.“

Á myndinni hér fyrir neðan er lagt upp frá Menntaskólanum á Akureyri og áfangastaður er Menningarhúsið Hof. Eins og sést tekur það aðeins um 12 mínútur að ganga úr MA í Hof og innan við 5 mínútur að hjóla.

Smellið hér til að lesa grein Guðmundar.