Fara í efni
Verkmenntaskólinn á Akureyri

Dagur í lífi rokkbóndans í Kristnesi

Helgi Þórsson á hlaðinu við sveitabæinn Kristnes. Myndir með viðtali: Rakel Hinriksdóttir

„Við erum með frábæran innanhúshönnuð,“ segir Helgi Þórsson, bóndi og tónlistarmaður, þegar blaðamaður Akureyri.net gengur í bæinn. „Það er búið að fara gaumgæfilega yfir allt hérna og skipuleggja hvert horn.“ Helgi segir þetta hlæjandi og nóg fyrir blaðamann að líta í kring um sig til þess að hrekja þessa fullyrðingu. Helgi býr á neðri hæðinni á sveitabænum Kristnesi, ásamt konu sinni Beate Stormo og einum af fjórum sonum þeirra hjóna, en hinir eru flognir úr hreiðrinu.

  • Á MORGUNVar að moka skít þegar ég heyrði pönk í fyrsta sinn

Við erum stödd á dásamlega klassísku sveitaheimili, þar sem öllu ægir saman. „Ég hef reyndar aldrei skilið þetta með að vilja hafa sem minnst inni hjá sér,“ segir Helgi á meðan hann hellir upp á kaffi. Blaðamaður segir að það kallist ‘Minimalismi’, og áður en kaffið er komið á borðið erum við sammála um að stefnan sem fjölskyldan á Kristnesi aðhyllist sé sennilega ‘Maximalismi’.

Helgi hellir upp á kaffi í eldhúsinu/skrifstofunni.

Á borðinu er kaffið í hitakönnu sem er kyrfilega merkt í bak og fyrir með óskiljanlegum orðum. Fljótlega tekur blaðamaður eftir því að mjólkurkannan er eins merkt, með hvítum miðum úr merkimiðavél. „Já. Einmitt,“ segir Helgi, þegar hann er spurður um allar þessar merkingar, sem leynast svo víðar um rýmið þegar nánar er að gáð. „Einn af sonum mínum ætlaði í skóla í Eistlandi, og einsetti sér að læra eistnesku. Hann tók sig til og merkti allt mögulegt hérna með hinu rétta heiti á eistnesku. Það er nú reyndar svolítið langt síðan, ég veit ekkert af hverju þessir miðar eru ennþá á öllu.“

Áhugasöm um að læra eistnesku gætu kíkt í kaffi í Kristnes í kennslustund. Þrívíddarprentaði kýrhausinn er reyndar ekki merktur.

Helgi drekkur kaffið sitt úr glasi, eins og oft tíðkast í sveitinni. „Af því að ég er bóndi, þá eru dagarnir mínir mjög árstíðarbundnir,“ segir hann, aðspurður um það hvernig dagur í hans lífi fari fram. „Nú erum við í vetrargírnum. Vekjaraklukkan hringir upp úr sex og ég fæ mér kornflex eða eitthvað í þeim dúr. Svo er farið að mjólka.“ Helgi segist fá sér fyrsta kaffibollann eftir morgunfjósið, en þau hjónin fara saman út. Faðir Helga býr á efri hæðinni og gjarnan er morgunkaffið tekið með honum. „Svo er nú voðalega gott að leggja sig aftur. Janúar er nú frekar rólegur tími í búskapnum, þannig ég leyfi mér að sofa þokkalega frameftir hérna fyrripartinn áður en ég fer út í einhver verk.“

„Ef maður er það sem maður étur, þá er ég að hálfu leyti kartafla.“

Hinn gamli hápunktur dagsins í sveitinni; heitur hádegismatur klukkan tólf, er hafður í heiðri á Kristnesi. „Þetta er lang oftast nokkuð klassískur íslenskur heimilismatur og það sem einkennir hann eru náttúrulega soðnar kartöflur,“ segir Helgi. „Ef maður er það sem maður étur, þá er ég að hálfu leyti kartafla. Restin er svona samtíningur. Ég á í ákveðnu ástarsambandi við kartöflur.“

„Mér finnst oft að einvera innandyra geti einkennst af eirðarleysi, en úti í skógi samlagast maður og verður partur af umhverfinu.“

„Eftir hádegið er gott að slappa af,“ segir Helgi. „Ég glugga jafnvel í bók eða hlusta á sögu í hlaðvarpinu. RÚV býður upp á ýmsar bækur eftir Halldór Laxness í lestri höfundarins. Það er rosalega gott að sofna út frá Laxness. Oft er ekki neinn sérstakur söguþráður og hann er svo skemmtilegur blaðrari.“ Eftir hádegislúrinn fer Helgi í skógarhögg. „Við eigum skóginn hérna við hælið, gamla Kristnesskóginn. Þangað finnst mér gott að fara með keðjusög og grisja svolítið. Í skóginum er gott að vera. Það er svona þægileg einvera. Mér finnst oft að einvera innandyra geti einkennst af eirðarleysi, en úti í skógi samlagast maður og verður partur af umhverfinu. Svo er líkamleg vinna góð hvíld fyrir andann.“

Svo þarf að taka kaffitíma. Einn af mörgum, ég hef náttúrulega skautað framhjá ótal kaffitímum í þessari frásögn,“ segir Helgi. „Það eru þessir djöflar sem þarf að draga þegar maður er alltaf að leggja sig, þá vantar manni svo mikinn sykur og koffín. Aðallega sykur, ég get ekki hamið mig ef ég veit af kexpakka í húsinu og þarf að éta hann allan.“

Kona Helga, Beate Stormo, er ekki heima í líkamlegu formi, en þó er nærvera hennar sterk.

„Eftir kaffitímann er aftur komið að fjósinu. Við förum út um hálf fimm leytið og klárum fyrir kvöldmat, það er kosturinn við að taka fyrra fjósið svona snemma,“ segir Helgi. „Og af því að ég var svo duglegur að leggja mig yfir daginn, hef ég næga orku í að fara á leikæfingu á kvöldin.“ Heimavöllur Helga í leiklistinni er og hefur alltaf verið Freyvangur, enda er Helgi fæddur og uppalinn í Eyjafjarðarsveit. Þar hefur hann leikið ófá hlutverkin, spilað og samið tónlist og jafnvel skrifað heilu leikritin. ‘Vínland’ er söngleikur sem Helgi samdi og hljómsveitin hans, ‘Helgi og hljóðfæraleikararnir’ sömdu tónlistina. Freyvangsleikhúsið fékk hið eftirsótta boð um að sýna Vínland í Þjóðleikhúsinu, sem áhugaleiksýningu ársins árið 2009.

Hér er Helgi með bræðrum sínum Bergsteini og Ingólfi sem ræningjarnir í Kardemommubænum. (2022) Mynd: Freyvangsleikhúsið

Í ár ætlar Freyvangsleikhúsið að setja upp Gaukshreiðrið. „Við erum að æfa þetta villt og galið,“ segir Helgi. „Það bar brátt að að ég fengi hlutverk sem geðsjúklingurinn Martini, og í lýsingu á persónu minni er honum lýst sem ‘litlum og feitum ítala’ þannig að ég smellpassa augljóslega í það.“

Frá æfingu á Gaukshreiðrinu. F.v. Sindri Swan, Helgi, Hallur Örn og Svavar Máni í hlutverkum sínum. Mynd: Freyvangsleikhúsið

Helgi fór snemma að laðast að sviðsframkomu, hvort sem það tengdist leiklist eða tónlist. „Ég hef alltaf haft mjög fjölbreyttan áhuga á listum sem náði í allar áttir, alveg frá því að ég man eftir mér,“ segir Helgi. „Ég uppgötvaði það fljótt að það væri gaman að standa á sviði. Ég var mjög ungur dreginn með í Freyvangsleikhúsið í svokallaðan ‘Kabarett’, en það voru svona sketsa-sýningar um ævintýri sveitunga. Það var ekkert aftur snúið þá.“

  • Á MORGUNVar að moka skít þegar ég heyrði pönk í fyrsta sinn

Helgi er næstyngstur fjögurra bræðra og í næsta hluta viðtalsins förum við aftur í tímann í Kristnesi, þar sem Kristnesbræðurnir léku sér öllum stundum með hinum krökkunum í þorpinu við mismikinn fögnuð fullorðinna. 

Einnig dregur til tíðinda í tónlistinni hjá Helga, en hljómsveitin Helgi og hljóðfæraleikararnir gáfu út bók með textum hljómsveitarinnar fyrir jólin, sem svo verður fylgt eftir með tvöfaldri vínylplötu á næstunni. Heyrum allt um það í seinni hluta viotalsins.