Fara í efni
Þór/KA

Stórskemmtilegur toppslagur – MYNDIR

Hulda Ósk Jónsdóttir fagnar glæsilegu marki sínu gegn Val í gærkvöldi ásamt samherjunum. Sandra María Jessen lengst til hægri. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA tapaði 2:1 fyrir Val í gær í Bestu deildinni í knattspyrnu á Þórsvellinum (VÍS-vellinum) eins og Akureyri.net greindi frá í gærkvöldi. Grátlegt tap eftir jafnan leik tveggja góðra liða þar sem Þór/KA náði forystu en Valur skoraði tvívegis í lokin. 

Valsmenn byrjuðu mun betur en Stelpurnar okkar í Þór/KA unnu sig vel inn í leikinn og fyrri hálfleikurinn var að mörgu leyti góður þrátt fyrir að ekki hafi verið skorað. Stál í stál væri líklega besta lýsingin.

Seinni hálfleikurinn var mjög vel leikinn af beggja hálfu og stórskemmtilegur. Bæði lið fengu prýðileg færi til að skora meira.
_ _ _

GOTT TÆKIFÆRI SÖNDRU
Sandra María Jessen markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar komst inn í slæma sendingu Valsmanna snemma í seinni hálfleik. Hún áttaði sig e.t.v. ekki á því að enginn varnarmaður var nálægur, skaut frá vítateigslínu í stað þess að fara lengra og missti marks.

_ _ _

FRÁBÆRT MARK HULDU
Hulda Ósk Jóns­dótt­ir braut ísinn í Akureyrarsólinni með glæsilegu marki á 60. mínútu. Lék inn í vítateiginn hægra megin, sveilaði vinstri fætinum og sendi boltann með snúningsskoti efst upp í fjærhornið. Frábærlega gert.

_ _ _

DAUÐAFÆRI
Það var með hreinum ólíkindum að Þór/KA skyldi ekki komast í 2:0 á 70. mínútu. Una Móeiður sendi inn á markteig utan af vinstri kanti Lara Ivanusa henti sér fram og aðeins munaði hársbreidd að hún næði að skalla boltann í netið.
 
_ _ _
 
KLAUFALEG RANGSTAÐA
Þegar 10 mínútur voru eftir komst Þór/KA aftur í kjörstöðu. Sandra María Jessen og Karen María Sigurgeirsdóttir voru tvær gegn tveimur varnarmönnum en Karen uggði ekki að sér og var komin í rangstöðu þegar Sandra sendi boltann til hennar.
 
_ _ _
 
VALUR JAFNAR
Fimm mínútur voru eftir þegar Valsmenn jöfnuðu. Fanndís Friðriksdóttir sendi þá á Berglindu Björgu Þorvaldsdóttur vinstra megin í teignum og hún renndi boltanum framhjá Hörpu markverði og í netið. Gömlu brýnin byrjuðu bæði á bekknum, Fanndís kom inn á í byrjun seinni hálfleiks og Berglind Björg á 65. mínútu. Þetta var fyrsta mark Berglindar í deildinni síðan hún sneri heim úr atvinnumennsku í vetur.
 

_ _ _
 
HARPA VER FRÁ FANNDÍSI
Aðeins tveimur mínútum eftir jöfnunarmarkið virtist Harpa Jóhannsdóttir markverði vera að tryggja Þór/KA stig. Fanndís komst í dauðafæri en Harpa gerði mjög vel að verja ...
 
_ _ _
 
SIGURMARK Á SÍÐUSTU STUNDU
Komið var í uppbótartíma þegar Valsmenn tryggðu sér sigur og þrjú stig. Brotið var á leikmanni Vals rétt fyrir utan vítateig og aukaspyrna dæmd, Amanda Jacobsen Andradóttir tók aukaspyrnuna af mikilli snilld en Harpa sá við henni og varði þegar boltinn stefndi í hægra horn marksins. Harpa náði hins vegar ekki að slá boltann til hliðar heldur fór hann út í markteig þar sem Anna Björk Kristjánsdóttir var ákveðnust, renndi sér á boltann og kom honum í markið. Ótrúleg dramatík og grátlegur endir fyrir Þór/KA á stórgóðum leik.