Stelpurnar í Þór/KA halda sínu striki
Þór/KA heldur sínu striki í Bestu deild kvenna í knattspyrnu; Stelpurnar okkar unnu býsna öruggan sigur á Fylki, 3:1, á heimavelli í kvöld og fylgja Breiðabliki og Val eins og skugginn.
Þetta var ekki besti leikur Þórs/KA í sumar en öllu skiptir að hann vannst. Eins og staða liðanna er núna var hægt að kalla þetta skyldusigur, ekkert gerist þó sjálfkrafa og þótt heimaliðið hafi ekki sýnt sparihliðarnar nældi það í þrjú stig sem er aðalatriðið þegar öllu er á botninn hvolft.
Valur vann FH 3:1 seinna í kvöld og lið Breiðabliks og Vals eru því efst og jöfn með 24 stig að loknum níu leiknum en Þór/KA er í þriðja sæti með 21. Í fjórða sæti eru FH-ingar með 13 stig.
_ _ _
- Hildur Anna Birgisdóttir braut ísinn í kvöld þegar 23 mínútur voru liðnar. Boltinn barst til hennar nokkrum metrum fyrir utan vítateig, Hildur hikaði ekki heldur lét vaða á markið og boltinn söng í netinu; fast og glæsilegt skot sem kom markverði Fylkis í opna skjöldu. Hér að neðan horfir hún ákveðin á svip á eftir boltanum og fagnar innilega.
Hildur er fædd 2007, varð 17 ára þann 12. þessa mánaðar og stimplaði sig skemmtilega inn í liðið gegn Stjörnunni þremur dögum síðar. Lék þá seinni hálfleikinn, lagði upp mark strax á annarri mínútu hálfleiksins og skoraði svo sjálf – beint úr hornspyrnu! Í kvöld hélt hún ótrauð áfram.
_ _ _
- Guðrún Karitas Sigurðarsdóttir jafnaði metin fyrir Fylki með marki af stuttu færi eftir hornspyrnu seint í fyrri hálfleik. Varnarleikur Þórs/KA brást illa í það skipti; Harpa markvörður náði ekki boltanum sem hrökk í fót Huldu Bjargar og þaðan til Guðrúnar Karitasar sem þakkaði kærlega fyrir sig með því að skora auðveldlega.
_ _ _
- Hulda Björg Hannesdóttir náði forystu fyrir Þór/KA á ný um miðjan seinni hálfleik. Hornspyrna var tekin frá hægri, Sandra María Jessen skallaði boltann í þverslá og gamli framherjinn, sem í mörg ár hefur leikið í hjarta varnarinnar, var snöggur að átta sig; sá hvað verða vildi og stangaði boltann í netið eftir að hann small í þverslánni.
_ _ _
- Lara Ivanusa gerði þriðja markið á 78. mínútu. Hún þrumaði að marki fyrir utan vítateig, skotið var fast en stefndi beint á markvörð Fylki sem náði þó ekki að verja. Afar slakt hjá markverðinum.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna