Leikdagur hjá A-landsliðinu
Akureyringar eiga sína hefðbundnu fulltrúa með A-landsliðinu sem mætir Wales á útivelli í næstsíðustu umferð Þjóðadeildarinnar í kvöld.
Sandra María Jessan frá Þór/KA og Arna Sif Ásgrímsdóttir úr Val eru í landsliðshópnum eins og í undanförnum verkefnum. Í hópnum er svo einnig sú þriðja sem spilað hefur fyrir Þór/KA, Lára Kristín Pedersen, en hún var leikmaður Þórs/KA 2019. Sandra María hefur verið í byrjunarliðinu í öllum leikjum liðsins í Þjóðadeildinni hingað til, en Arna Sif hefur verið varamaður í leikjunum hingað til og því miður aðeins komið við sögu í einum leik.
Á vef Þórs/KA er rætt við Söndru Maríu um leikinn í kvöld, innkomu hennar og aukið hlutverk með landsliðinu og fleira. „Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir leiknum í kvöld á móti Wales,“ segir Sandra María. „Æfingarnar hafa verið mjög góðar og það er góð stemning í hópnum. Wales eru með marga flotta leikmenn sem spila flestar í ensku úrvalsdeildinni, þannig að þetta eru gæðaleikmenn sem við erum að mæta. Því þurfum við að leggja okkur allar fram til að ná settu markmiði, sem er að taka öll þrjú stigin. Síðan förum við auðvitað inn í Danaleikinn með það að markmiði að vinna leikinn, við munum gefa okkur allar 120% í verkefnið og verðum að sjá hverju það skilar okkur,“ segir Sandra María í viðtalinu. Sjá nánar á thorka.is.