Hulda Ósk lagði upp 4 mörk – Sandra gerði 3
Stelpurnar í Þór/KA komust á sigurbraut á ný í dag þegar þær unnu Þrótt 4:2 í Bestu deildinni í knattspyrnu. Liðin mættast á heimavelli Þróttar í Laugardalnum í Reykjavík.
Sandra María Jessen hefur verið á skotskónum í allt sumar, var lang markahæst í deildinni fyrir daginn og bætti heldur betur í gegn Þrótti; hún gerði þrjú mörk í fyrri hálfleik og hefur nú gert hvorki meira né minna en 15 mörk í 12 leikjum. Þrjár eru næstar á listanum, hafa allar gert sjö mörk.
Sandra María var mögnuð í leiknum en þó skyggði Hulda Ósk Jónsdóttir á markadrottninguna; Hulda fór hamförum og lagði upp öll fjögur mörk Þórs/KA í Laugardalnum, allt með glæsilegum sendingum.
Þór/KA lagði grunninn að sigri með frábærum fyrri hálfleik. Eftir þrjá erfiða leiki í röð, bæði andlega og líkamlega, blómstraði liðið í fyrri hálfleik; sólskin var og hiti í höfuðborginni – og himininn heiður og blár, eins og listaskáldið góða orðaði það svo fallega á sínum tíma. Góða veðrið átti vel við Akureyringana og skyldi engan undra, unun var að fylgjast þeim í fyrri hálfleiknum og ánægjulegt að sjá að vonbrigði síðustu leikja hafi verið skilin eftir heima. Framundan er stutt frí vegna landsleikja og það er án efa kærkomið.
1:0 – Sandra María gerði fyrsta markið á 16. mínútu. Skallaði þá glæsilega í netið úr markteignum eftir frábæra sendingu Huldu Óskar af hægri kantinum.
2:0 – Hulda Ósk náði boltanum úti á miðjum velli á 21. mín., sendi hárnákvæmt á milli varnarmanna á Söndru sem lét vaða á markið frá vítateig og boltinn söng í netinu. Markvörðurinn átti ekki möguleika á að verja. Aftur frábærlega gert hjá báðum.
3:0 – Rétt fyrir lok fyrir hálfleiks sendi hægri bakvörðurinn Bryndís Eiríksdóttir boltann fram kantinn á Huldu Ósk sem lék aðeins áfram og átti svo enn eina gullfallegu fyrirgjöfina inn á markteig, þangað sem Sandra var mætt að vanda og stangaði boltann aftur í netið. Mögnuð tilþrif enná ný.
3:1 – Leah Maryann Pais minnkaði muninn eftir að gestunum mistókst að hreinsa almennilega frá markinu í kjölfar hornspyrnu.
4:1 – Á 63. mínútu gerði Karen María Sigurgeirsdóttir fjórða mark Þórs/KA. Hulda Ósk átti að þessu sinni snilldar stungusendingu utan af velli á markaskorann sem lék inn í vítateig og skoraði með fallegu skoti.
4:2 – Kristín Rós Antonsdóttir minnkaði muninn í tvö mörk á 71. mínútu.
Eftir sigurinn í dag festir Þór/KA sig í sessi í þriðja sæti deildarinnar. Liðið hefur 24 stig að loknum 12 leikjum en FH, sem tapaði 4:0 fyrir Breiðabliki í kvöld, er í fjórða sæti með 19 stig. Breiðablik og Valur, sem vann Víking 2:0 í dag, eru efst með 33 stig.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna