Fara í efni
Þór/KA

Glæsimark Huldu og Þór/KA nældi í þrjú stig

Hulda Ósk Jónsdóttir, fyrir miðri mynd, tryggði Þór/KA sigur í kvöld með stórglæsilegu marki. Sandra María Jessen er lengst til hægri. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór/KA nældi í þrjú stig í Reykjanesbæ í kvöld þegar liðið sigraði Keflavík 1:0 í Bestu deild kvenna, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þór/KA er því áfram í þriðja sæti deildarinnar, er nú með 27 stig að loknum 14 umferðum.

Það var stórglæsilegt mark Huldu Óskar Jónsdóttur snemma í seinni hálfleik sem skildi liðin að í dag. Hulda fékk boltann úti á vinstri kanti, lék í átt að vítateigshorninu og skaut þaðan; sendi boltann með glæsilegu skoti efst í fjærhornið, algjörlega óverjandi. Frábærlega gert.

Stelpurnar okkar fengu fleiri góð færi til að skora en nýttu ekki, en það fengu leikmenn heimaliðsins sannarlega líka. Það varð norðanstúlkum til happs að Harpa Jóhannsdóttir, sem fékk tækifæri í markinu í dag, lék mjög vel. Harpa var öryggið uppmálað og sá nokkrum sinnum við Keflvíkingi í ákjósanlegu færi.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna