Angela Mary, Iðunn Rán og Agnes Birta semja
Agnes Birta Stefánsdóttir, Angela Mary Helgadóttir og Iðunn Rán Gunnarsdóttir skrifuðu allar undir nýjan samning við knattspyrnulið Þórs/KA í kvöld. Það gerði einnig fyrirliði liðsins, landsliðskonan Sandra María Jessen, eins og Akureyri.net sagði frá áðan.
Angela Mary og Iðunn Rán sömdu báðar til tveggja ára en Agnes Birta til eins árs, að því er segir í tilkynningu frá Þór/KA í kvöld. Þar segir meðal annars um leikmennina:
- Agnes Birta Stefánsdóttir er fædd 1997. Hún á að baki 80 KSÍ-leiki í meistaraflokki, þar af 38 í efstu deild, ásamt leikjum í næstefstu deild með Hömrunum 2018 og Tindastóli 2020 á lánssamningum frá Þór/KA.
Hún kom fyrst við sögu í meistaraflokki með Þór/KA sumarið 2015, en leikjaferill hennar hér heima markaðist nokkuð af því að hún stundaði nám og spilaði knattspyrnu með háskólaliði í Bandaríkjunum 2018-2022.
Agnes Birta spilaði sem miðjumaður í yngri flokkum, en hefur undanfarið aðallega spilað í stöðu miðvarðar og bakvarðar með Þór/KA. Hún vann sér fast sæti í liði Þórs/KA í sumar og spilaði 20 leiki í Bestu deildinni, flesta þeirra í byrjunarliði, ásamt leikjum í bikarkeppni, deildabikar og æfingamóti á undirbúningstímabilinu.
Núverandi samningur Agnesar Birtu rennur út um áramótin, en hún hefur nú skrifað undir nýjan samning og framlengt veru sína hjá Þór/KA um að minnsta kosti eitt ár.
- Angela Mary Helgadóttir er fædd 2006. Hún er hluti af fjölmennum hópi ungra og efnilegra leikmanna sem koma úr yngri flokkum félaganna og hafa fengið tækifæri með meistaraflokki á undanförnum árum.
Hún kom fyrst við sögu í meistaraflokki vorið 2021 með Hömrunum í bikarkeppni og 2. deild og skrifaði undir sinn fyrsta samning við Þór/KA í apríl 2022. Hún á að baki 30 leiki og eitt mark í KSÍ-leikjum í meistaraflokki, þar af 12 leiki í efstu deild. Þá hefur hún spilað samtals 11 leiki með yngri landsliðum Íslands, U18, U17 og U16.
Angela Mary spilar sem miðvörður eða bakvörður. Meiðsli settu strik í reikninginn undanfarið ár, en hún kom þó við sögu í sex leikjum með meistaraflokki á árinu ásamt því að vera ein af lykilleikmönnum í liði Þórs/KA/Völsungs í 2. flokki sem vann Íslandsmeistaratitilinn með yfirburðum í ár.
Núverandi samningur hennar rennur út um áramótin, en hún hefur nú skrifað undir nýjan samning til tveggja ára við Þór/KA.
- Iðunn Rán Gunnarsdóttir er fædd 2005. Hún á að baki 46 meistaraflokksleiki í mótum á vegum KSÍ, þar af 27 leiki í efstu deild. Hún spilaði fyrstu meistaraflokksleiki sína með Hömrunum í 2. deild sumarið 2020 og hefur verið í leikmannahópi Þórs/KA síðan þá, spilað reglulega með meistaraflokki og 2. flokki.
Iðunn Rán hefur mest spilað sem miðvörður, en einnig brugðið sér í aðrar stöður. Hún var fyrirliði Þórs/KA/Völsungs í 2. flokki í sumar sem vann Íslandsmeistaratitilinn með yfirburðum. Hún á jafnframt að baki 11 landsleiki með yngri landsliðum Íslands, nú síðast með U19 landsliðinu. Núverandi samningur hennar rennur út um áramótin, en hún hefur nú skrifað undir nýjan samning til tveggja ára við Þór/KA.
Stjórn Þórs/KA fagnar því í tilkynningunni að ungar og efnilegar knattspyrnukonur velji að æfa og spila knattspyrnu með uppeldisfélaginu.
Þar segir: „Þór/KA er á meðal öflugustu félaga á landinu við framleiðslu leikmanna, ef svo má að orði komast, sem glöggt má sjá á þeim fjölda heimastúlkna sem skipað hafa leikmannahóp meistaraflokks undanfarin ár og þeim fjölda öflugra leikmanna sem koma frá Akureyri og spila með öðrum bestu liðum hér á landi og/eða hafa farið utan og reynt sig í atvinnumennskunni.“