Fara í efni
Safnkosturinn

Andrými til þess að tileinka sér nýja hæfni

Kristína Ösp Steinke og Guðný Valborg Guðmundsdóttir, Andrýminu. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Undanfarna mánuði hafa verið haldin örnámskeið víðsvegar um bæinn, eins fjölbreytt og þau eru mörg, en sameiginlegt eiga þau að vera haldin af Andrýminu. Sem dæmi má nefna hafa verið námskeið í súrdeigsbrauðbakstri og kínversku fótanuddi á Amtinu, í byggingu matjurtakassa úr vörubrettum í Kjarnaskógi og fleira. En hvaða fyrirbæri er Andrýmið?

Við erum fjölmenningarlegur hópur, en erum allar frá mismunandi löndum

„Andrýmið er upphaflega vinkonuhópur en hefur þróast út í það núna að vera félagasamtök,“ segir Guðný Valborg Guðmundsóttir, heimaskólakennari og tónlistarkona. Blaðamaður hittir Guðnýju á Amtsbókasafninu, ásamt stöllu hennar, Kristínu Ösp Steinke (Ínu), húsmóður í endurhæfingu hjá VIRK. „Við erum fjölmenningarlegur hópur, en erum allar frá mismunandi löndum,“ bætir hún við. Guðný og Ína eru reyndar báðar íslenskar, en þær eiga erlenda eiginmenn og hafa búið erlendis. Hinar eru þær Cynthia U. Hung-Hsieu Stimming, Julia Jessica Gunnarsson og Alexandra G. Soto Hernandez. Guðný og Ína eru með ung börn og vinkonur þeirra í Andrýminu eru líka í mömmuhlutverkinu. Þannig hittust þær fyrst. 

 

Frá námskeiði í kínversku fótanuddi á Amtsbókasafninu. Mynd: Facebook Andrýmis

„Okkur langaði svo að gera eitthvað saman, eitthvað sem gæti eflt samfélagið og eins skapað ramma fyrir útlendinga á svæðinu til þess að komast inn í hópinn hérna,“ segir Ína. „Í þessum vinahópi okkar af útlendingum frá ólíkum stöðum, er það mjög umtalað að það er erfitt að komast inn í íslenskt samfélag. Við heyrðum það allsstaðar frá. Mörg hver hafa búið hérna frekar lengi en eiga ennþá erfitt með þetta.“ 

Hefðir og handverk ólíkra menningarheima 

„Hugmyndin er eiginlega að búa til lítið samfélag af fólki sem hefur áhuga á sjálfbærni, heilsu, handverki og endurnýtingu,“ segir Ína. „Okkur langaði að kynnast ólíkum hefðum frá ólíkum heimshornum með þessum hætti. Til dæmis gætum við lært að taka slátur, sem íslenska hefð sem er kannski á undanhaldi í sífellt hraðari lífsstíl samfélagsins.“

Svo erum við svo ákveðnar, að þegar umsóknin var samþykkt, drifum við okkur í að móta dagskrá og raða upp námskeiðum

Vinkonurnar mótuðu hugmyndina í sameiningu og stukku svo á tækifærið til þess að sækja um styrk þegar Uppbyggingasjóður Norðurlands eystra auglýsti. „Umsóknarfresturinn var skyndilega að renna út og við hentum bara í umsókn,“ segir Guðný. „Svo erum við svo ákveðnar, að þegar umsóknin var samþykkt, drifum við okkur í að móta dagskrá og raða upp námskeiðum.“ Andrýmið fékk styrk fyrir tíu námskeiðum, en hingað til hafa verið haldin fimm.

Fylltist samdægurs á súrdeigsbrauðsnámskeið

„Ég hélt fyrsta námskeiðið, hvernig maður smíðar matjurtarkassa úr vörubrettum,“ segir Ína. „Það var haldið í Kjarnaskógi og gekk mjög vel. Svo höfum við verið með námskeið þar sem kínversk kona sem býr í Bretlandi kom og kenndi okkur að sauma svuntur. Á Amtinu vorum við svo með námskeið í súrdeigsbrauðbakstri og kínversku fótanuddi. Síðan var kennt að blanda ilmkjarnaolíur.“ Námskeiðin hafa verið opin öllum og vel sótt, en sem dæmi var langur biðlisti á súrdeigsbrauðbaksturinn og töluvert færri komust að en vildu. 

 

Ína kenndi námskeið um nýtingu vörubretta í matjurtarkassa. Mynd: Facebook síða Andrýmis

Skortur á hagnýtri kennslu milli kynslóða

„Að mörgu leyti snýst þetta líka um að læra einhverja hæfni hvort af öðru,“ segir Guðný. „Mér finnst að okkar kynslóð hafi ekki kannski fengið að læra hagnýta hæfni af foreldrum okkar, sem urðu að læra af foreldrum sínum og svo kynslóð fram af kynslóð aftur í tímann. Okkur langar að brúa þetta bil, að byrja að kenna hvort öðru aftur.“ Guðný bætir svo við að einnig snúist kennslan um aukna meðvitund um nýtni, hæglæti og samvinnu. 

 

Námskeiðið í súrdeigsbrauðbakstri var einstaklega vinsælt. Hér útskýrir Guðný fyrir hópnum. Mynd: Facebook síða Andrýmis

„Það er svo gott að leyfa sér að njóta þess að gera eitthvað hægt,“ segir Guðný. Ína bætir við að það sé líka spennandi hugmynd að kynnast fleira fólki sem býr yfir ólíkri visku í gegn um viðburðina, þá geti maður ef til vill eignast nýtt tengslanet af úrræðagóðum einstaklingum, sem væri þá hægt að heyra í þegar upp vakna spurningar. „Til dæmis, vita þau sem sóttu námskeiðið mitt, að ég veit sitthvað um að smíða. Ég gæti því eflaust svarað vangaveltum varðandi smíðaverkefnin á heimilinu,“ segir Ína.

„Nafnið Andrýmið vísar einmitt til þessa hæglætis,“ segir Ína. „Að gefa sér tíma til þess að tileinka sér nýja hæfni, gefa sér tíma til þess að vera meðvitaður.“

Áhugasöm geta haft samband við Andrýmið á Facebook.

Næstu námskeið Andrýmisins:

Á döfinni er einnig að halda námskeið í aðventukransagerð, sem ekki er kominn viðburður fyrir á Facebook ennþá.