Fara í efni
MA – VMA

SA vann í framlengingu – fyrsta stig SR

Leikmenn SA fagna eftir að Herborg Rut Geirsdóttir skoraði í framlengingu gegn SR í kvöld. Skjáskot úr útsendingu á YouTube.

Kvennalið SA í íshokkí vann nauman sigur með gullmarki í framlengdum leik gegn liði SR í kvöld. Herborg Rut Geirsdóttir tryggði SA aukastigið þegar níu sekúndur voru eftir af framlengingunni.

Silvía Rán Björgvinsdóttir skoraði eina markið í fyrsta leikhlutanum eftir rúmlega 14 mínútna leik. Markalaust var í öðrum leikhluta, en Saga Margrét Sigurðardóttir Blöndal jafnaði leikinn fyrir SR í þriðja leikhlutanum, þegar rétt rúm mínúta var eftir af leiknum. Lokatölur að loknum 60 mínútum því 1-1 og stigunum skipt, en spiluð framlenging, fimm mínútur, um sigur og aukastig.

Í framlengingu í íshokkí er spilað upp á gullmark og það kom þegar um níu sekúndur voru eftir af framlengingunni þegar Herborg Rut Geirsdóttir skoraði eftir snögga sókn og stoðsendingu frá Silvíu Rán Björgvinsdóttur. Ekki löngu áður munaði minnstu að Ragnhildi Kjartansdóttur tækist að tryggja gestunum sigurinn, en Shawlee Gaudreault varði skot hennar. 

Það var því SA sem hirti aukastigið, en SR náði sér í sitt fyrsta stig í Toppdeildinni í vetur. Í spilaranum hér að neðan má sjá mark SA í framlengingunni. 

Gangur leiksins: SA - SR 2-1 (1-0, 0-0, 0-1, 1-0)

SA

Mörk/stoðsendingar: Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/1, Herborg Rut Geirsdóttir 1/0, Aðalheiður Ragnarsdóttir 0/1.
Varin skot: Shawlee Gaudreault 30 (96,77%).
Refsimínútur: 14.

SR

Mörk/stoðsendingar: Saga Blöndal Sigurðardóttir 1/0, Gunnborg Jóhannesdóttir 0/1.
Varin skot: Andrea Bachmann 37 (94,87%).
Refsimínútur: 6.

Upptöku af leiknum má sjá í spilaranum hér að neðan.