Fara í efni
Kirkjutröppurnar

Lífsgæðakjarnar eru forgangsverkefni

Hugmynd að útfærslu á byggingu lífsgæðakjarna við Þursaholt, teiknuð af Fanneyju Hauksdóttur hjá AVH arkitektum. Skjáskot úr skýrslu vinnuhóps.

Bæjarráð Akureyrarbæjar telur forgangsverkefni að lífsgæðakjarni fyrir eldri borgara verði að veruleika og mikilvægt að slíkur lífsgæðakjarni verði hluti af aðalskipulagi sveitarfélagsins og á starfsáætlun skipulagsráðs 2025. Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs sem hefur vísað málinu til skipulagsráðs.

Málið verður aftur á dagskrá bæjarráðs í janúar og þá metið með hvaða hætti best sé að fylgja því eftir þannig að sem mestar líkur séu á því að lífsgæðakjarni verði að veruleika eins fljótt og auðið er.

  • HVAÐ ER LÍFSGÆÐAKJARNI? – Smellið hér til að sjá útskýringu á því.

Græna svæðið á þessari mynd frá 2021 er það sem nú heitir Þursaholt – sama svæði og á teikningu Fanneyjar að ofan. Húsið með rauða þakinu neðst til vinstri er Jötunfell, sem verður rifið, en ekki verður hróflað við Bárufelli, sem sést í fjarska. Efst til vinstri er verksmiðja TDK Foil í Krossanesi.

Þörf fyrir tvo lífsgæðakjarna

Bókun bæjarráðs var gerð þegar ráðið fjallaði í nýliðinni viku um greiningu og tillögur vinnuhóps vegna uppbyggingar lífsgæðakjarna fyrir eldri borgara. Greining vinnuhópsins á þeim landsvæðum sem til greina koma, hækkandi hlutfall eldri borgara af íbúafjölda bæjarins og könnun meðal félagsmanna í Félagi eldri borgara á Akureyri (EBAK) sýna að þörf er á uppbyggju tveggja lífsgæðakjarna á næstu tíu árum.

Niðurstaða vinnuhópsins er í stórum dráttum að horft verði til byggingar lífsgæðakjarna, með hjúkrunarheimili, íbúðum (eignar- eða leiguíbúðum) og þjónustu í Holtahverfi annars vegar og Hagahverfi hins vegar. 

Fram kemur í greiningunni að á svæði vestan við Síðuskóla og norðan hjúkrunarheimilisins Lögmannshlíðar sé gert ráð fyrir byggingu allt að 80 rýma hjúkrunarheimili á fjórum hæðum. Deiliskipulag er í gildi og lóðinni var úthlutað til ríkisins fyrir tveimur árum og hægt að hefja framkvæmdir um leið og teikningar hafa verið samþykktar. Norðan við þá lóð er þéttingarsvæði þar sem gert er ráð fyrir byggingu nokkurra raðhúsa, en sá reitur þó ekki talinn heppilegur fyrir uppbyggingu lífsgæðakjarna þar sem íbúðir þar yrðu ekki nægjanlega margar.  

Þursaholt efst á lista

Til stóð að byggja 132 íbúðir í fjórum húsum við Þursaholt, í hinum nýja hluta Holtahverfis, austan Krossanesbrautar, en ekki varð af þeim áformum. Búfesti, sem var í samvinnu við EBAK um byggingu íbúða þarna, skilaði lóðinni aftur til Akureyrarbæjar. Eftir að lóðinni var skilað kom upp hugmynd um að skoða hvort þarna væri hentugt að byggja lífsgæðakjarna. 


Umræddur skipulagsreitur við Þursaholt er afmarkaður með grænu á myndinni. Breyting á aðalskipulagi er í ferli og gæti lokið á næstu tveimur til þremur mánuðum. Skjáskot úr skýrslu vinnuhópsins.

Líklegast er að Þursaholt verði efst á listanum þegar kemur að framkvæmdum og þá mögulega innan tveggja til þriggja ára. Þó er tekið fram í skýrslu vinnuhópsins að engin ákvörðun hafi verið tekin um hvort Akureyrarbær hyggst bjóða upp á þjónustu á því svæði líkt og nú er í Félagsmiðstöðvum fólksins, Birtu og Sölku, en skipulagið bjóði sannarlega upp á að það sé skoðað mjög nákvæmlega.

Ástæða þess að Þursaholt er framar í röðinni en svæðið við Kjarnagötu er að uppbygging Holtahverfis er nú þegar komin vel á veg og innviðir til staðar, en framkvæmdir á nýju svæði vestan Kjarnagötu tækju lengri tíma. 


Hugmynd að útfærslu á byggingu lífsgæðakjarna við Þursaholt, teiknuð af Fanneyju Hauksdóttur hjá AVH arkitektum. Skjáskot úr skýrslu vinnuhópsins.

Hugmyndin hefur þegar verið kynnt heilbrigðisráðuneytinu og var Fanney Hauksdóttir, arkitekt hjá AVH, auk þess fengin til að skoða nánar mögulegar útfærslur á svæðinu. Fyrstu drög liggja fyrir (sjá mynd) og virðist svæðið geta hentað vel til uppbyggingar á hjúkrunarheimili, 40-60 íbúðum og mögulega þjónustukjarna. Breytingaferli vegna aðalskipulags gæti lokið á næstu tveimur til þremur mánuðum. 

Til viðbótar lóðinni sem skipulagsbreytingin snýst um eru tvær aðrar lóðir við sömu götu sem eftir er að úthluta, en samkvæmt deiliskipulagi má byggja 15 íbúðir á hvorri lóð. 

Lífsgæðakjarni í Hagahverfi eftir 5-10 ár

Jafnframt er lögð áhersla á að ekki líði langur tími milli uppbyggingar á lífsgæðakjarna í Hagahverfi, vestan Kjarnagötu, og framkvæmda við Þursaholt. Skipulagsbreyting vegna uppbyggingar við Þursaholt er nú þegar í lögformlegu ferli, en svæðið vestan Kjarnagötu er í núgildandi skipulagi skilgreint sem opið svæði og þarf því breytingu á aðalskipulagi áður en farið verður af stað með undirbúning þar. Áætlað er að framkvæmdir í Hagahverfinu gætu hafist eftir 5-10 ár.


Þessi loftmynd af Hagahverfinu og hluta Naustahverfis sýnir hvar lagt er til að lífsgæðakjarni númer tvö yrði byggður upp, vestan Kjarnagötu og sunnan Sómatúns og Sporatúns. Skjáskot úr skýrslu vinnuhópsins.

Í starfshópnum sitja Hulda Elma Eysteinsdóttir bæjarfulltrúi, Brynjólfur Ingvarsson bæjarfulltrúi, Karl Erlendsson, fulltrúi EBAK og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri, ásamt því að Hulda Sif Hermannsdóttir, aðstoðarmaður bæjarstjóra, vann með hópnum.

  • Á MORGUN: MEIRIHLUTI LÍKLEGUR TIL AÐ BÚA Í LÍFSGÆÐAKJARNA

Svæðið vestan Kjarnagötu í Hagahverfi sem fjallað er um í fréttinni er það sem þarna er teiknað inn á myndina. Mynd: Þorgeir Baldursson