Fara í efni
DNG

Vara við afleiðingum illa ígrundaðra áforma

Tvö skemmtiferðaskip í grennd við Hrísey.

Stjórn Hafnasamlags Norðurlands hefur ályktað um yfirvofandi afnám tollfrelsis á skemmtiferðaskip í hringsiglingum við Ísland og áform um álagningu sérstaks innviðagjalds á farþega skemmtiferðaskipa, sem koma fram í frumvarpsdrögum fjármála- og efnahagsráðherra sem nýverið voru til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda. 

Stjórnin tekur þar í einu og öllu undir umsögn Cruice Iceland, CLIA og AECO um ákvæði í áðurnefndu frumvarpi um upptöku innviðagjalds á skemmtiferðaskip frá áramótum. Þá áréttar stjórnin einnig andmæli við afnám tollafrelsis á svokölluð leiðangursskip. „Tillögur þessar eru illa ígrundaðar og gera ekki ráð fyrir neinni aðlögun að því skipulagi og bókunarferli sem unnið er eftir varðandi komur skemmtiferðaskipa til landsins,“ segir meðal annars í bókun stjórnar Hafnasamlagsins.

„Hafnasamlagið varar við þeim afleiðingum sem þessi útfærsla á innviðgjöldum og afnmámi tollafrelsis getur haft á bókanir og komur skipa hingað til lands, þegar á komandi sumri. Ljóst er að bæði hafnir og ferðaþjónustufyrirtæki munu missa umtalsverðar tekjur,“ segir meðal annars í bókun stjórnarinnar þar sem einnig er skorað á stjórnvöld að útfæra tillögur að gjaldheimtu vegna farþegaskipa í samvinnu og samráði við alla hagaðila, „þannig að tryggt verði að sú áratuga uppbygging og tekjumyndun sem fylgir komu farþegaskipa megi viðhaldast.“

Eins og fram hefur komið í fyrri umfjöllun Akureyri.net um tollfrelsismálið og innviðagjaldið er um verulega hagsmuni að ræða fyrir hafnir, ferðaþjónustufyrirtæki og samfélög á mörgum minni stöðum víða um land, þar á meðal í Hrísey og Grímsey þar sem mikill meirihluti skemmtiferðaskipa sem þangað koma eru í hringsiglningum sem umræddar breytingar taka til. 

Cruice Iceland, CLIA og AECO hafa lagt til að í stað núverandi áforma innleiði stjórnvöld í núverandi lög gagnsætt kerfi stigvaxandi hækkana frá 2026 til 2028 svo geirinn geti aðlagast nýja fyrirkomulaginu og forðast hættuna á afbókunum og fjárhagslegum skaða. Undir þessar tillögur tekur stjórn Hafnasamlags Norðurlands.