Fara í efni
Albúmið

Albúmið – Stofnun lýðveldis 1944

Ljósmynd: Ármann Dalmannsson

Sigurður Baldursson birtir annað veifið myndir á Facebook úr safni afa síns, Ármanns Dalmannssonar, þess kunna Akureyrings. Þessi mynd er tekin á Ráðhústorgi þegar Íslendingar fögnuðu stofnun lýðveldisins, 17. júní 1944, að sögn Sigurðar.

Hvítir kollar voru „einkennisklæðnaður“ félaga í Karlakór Akureyrar svo gera má ráð fyrir að þeir séu þarna á ferð.

Fáninn á myndinni er stórmerkilegur og er einmitt á aðalsýningu Minjasafnsins á Akureyri, Tónlistarbærinn Akureyri,  sem opnuð var sumarið 2020. Fólk er hvatt til þess að gera sér ferð á safnið og skoða fánann og fleira sem tengist tónlistarsögu bæjarins. Karlakórinn Hekla fór í söngför til Noregs árið 1905, fyrstur íslenskra kóra, og fékk þennan forláta fána sendan árið eftir frá borgaryfirvöldum í Haugasundi, til minningar um ferðina. Fáninn er forkunnarfagur, með nafni Heklu áletruðu á silki og á honum er líka málverk, mynd af fálka, sem situr á kletti og horfir út yfir hafið.

Lumar þú, lesandi góður, á upplýsingum um fólk á myndinni; þekkirðu einhvern karlakórsmanninn, skáta fremst á myndinni eða fólkið á horninu? Eða kanntu sögu frá þessum merkilega degi? Lesendur eru hvattir til að senda sögur eða minningar til birtingar, á netfangið skapti@akureyri.net