Fara í efni
Pistlar

Lonníettur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 21

Í fórum ömmu gömlu í Helgamagrastræti voru litlar lonníettur sem hún laumaði upp á nef sér ef sjóndepran var eitthvað að trufla hana í dagsins önn. En þær voru agnarsmáar, raunar svo fíngerðar að litlum sonarsyni hennar fannst með ólíkindum að hægt væri að sjá eitthvað út um örlítil augnglerin.

Og svo var annað mál að alltaf héldust þær á sínum stað, jafnvel þótt sjálfar lonníetturnar ættu bara að heita nefklemma, án nokkurs stuðnings við eyrun eins og vaninn var með venjuleg gleraugu upp úr miðri síðustu öld.

En amma lagði bara sínar lonníettur á nefbeinið og þrýsti á klemmuna helst til varlega með einum fingri, svo alltaf sátu þær óbifandi á eftir, hvernig sem hún beygði sig og reigði. Það tók því ekki einu sinni fyrir hana að næla fíngerðri festinni, sem hékk niður úr öðru glerinu, í hálsmálið á blússunni, eins og ráð var fyrir gert, því lonníetturnar hennar ömmu virtist vera samgrónar nebbanum.

Hún sagðist bara nota þær heima fyrir. Ef hún brygði sér af bæ, tæki hún með sér meira móðins glyrnurnar sem hún geymdi í köflóttu gleraugnaumgjörðinni á náttborðinu. Það léti enginn lengur sjá sig með svona gamaldags nefgleraugu.

En það mætti ég samt vita að þau hefðu breytt lífi hennar sem ungrar konu. Hún hefði alltaf verið glapsýn frá því hún mundi eftir sér um og upp úr aldamótunum 1900. Fjarlægðin hefði alltaf verið í móðu. Og fyrir vikið hefði hún átt það til að stelast í annarra manna sjóngler til að sjá eitthvað til fjallanna í kring.

Það sama hefði átt við marga á hennar reki sem fengu ekki gleraugu við hæfi fyrr en full til seint. En það hafi nú ekki verið hlaupið að því að útvega svona tilföng fyrir hvern sem var í afskekktum sveitum. Svo sjóndeildin var ansi smá, lengi vel, uns hún fékk að lokum þessar lonníettur, langt komin undir tvítugt.

Og þær færu aldrei úr föggum hennar.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: SPARKSLEÐI

Kolefnissugur og endurskinshæfni gróðurlenda

Sigurður Arnarson skrifar
15. maí 2024 | kl. 13:30

Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 35 (Fagrastræti 1)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
15. maí 2024 | kl. 08:00

Þúfnaganga

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. maí 2024 | kl. 13:30

Fagurt er til fjalla

Sverrir Páll skrifar
12. maí 2024 | kl. 11:30

Heilsukvíði

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
09. maí 2024 | kl. 10:00

Vaðlaskógur á 6. áratugnum

Sigurður Arnarson skrifar
08. maí 2024 | kl. 09:30