Fara í efni
Fréttir

Hörður færði KAON 505 þúsund krónur

Pétur Þór Jónasson, formaður Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis og Hörður Óskarsson. Mynd af vef KAON.

Hörður Óskarsson færði Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis (KAON) á dögunum 505.000 þúsund króna styrk. 

„Hörður hefur verið reglulegur styrktaraðili við félagið í gegnum árin,“ segir á vef KAON. Styrkina veitir hann til minningar um bróður sinn, Sigurð Viðar Óskarsson, sem lést úr krabbameini árið 2010. „Hörður smíðar fallegt skart úr gamalli mynt sem hann selur undir merkjum Mynthringar og allskonar á Facebook. Hann hefur smíðað slaufumen úr myntinni sem hafa fengið frábærar móttökur og hluti af ágóðanum rennur til félagsins,“ segir á vef KAON.

Í mars seldi Hörður mottu - barmnælur í tilefni af Mottumars. Hörður smíðar nælurnar úr mynt – gömlum einnar krónu og fimm krónu peningum og kallar Myntmottur. Mottan kostar 4.900 kr. og þar af renna 2.500 kr. til félagsins.

100 mottur fyrir Frost

Kælismiðjan Frost tók sig til gaf öllum starfsmönnum sínum, um 100 talsins, mottu-barmnælur í tilefni af Mottumars – hér má sjá frétt Akureyri.net um það. „Guðmundur framkvæmdastjóri Frosts hvetur alla til þess að leggja þessu góða málefni lið. Stuðningur almennings og fyrirtækja við forvarnir krabbameinsfélaganna og að styðja fólk sem greinist með krabbamein og aðstandendur þeirra skipti gríðarlega miklu máli,“ segir á vef KAON.

Vert er að geta þess að Myntmottur Harðar eru til sölu hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis og í vefverslun Krabbameinsfélagsins. Einnig er hægt að panta þær í gegnum Facebook síðu Harðar.

„Starfsfólk Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis og stjórn þakkar Herði kærlega fyrir ómetanlegan stuðning í gegnum árin,“ segir í tilkynningunni á vef félagsins.

Sigurður Viðar Óskarsson heitinn, bróðir Harðar.