Fara í efni
Fréttir

Um 500 manns tóku þátt í kröfugöngunni

Kröfugangan á leið norður göngugötuna, Hafnarstræti, eftir hádegi í dag. Myndir: Þorgeir Baldursson

Um 500 manns tóku þátt í kröfugöngu á Akureyri í dag, á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks, og hátíðardagskrá í menningarhúsinu Hofi að göngunni lokinni.

Að vanda var gengið frá Alþýðuhúsinu við Skipagötu, upp Kaupvangsstræti, norður Hafnarstræti að Ráðhústorgi og þaðan sem leið lá austur Strandgötu að Hofi. Lúðrasveit Akureyrar lék í göngunni eins og löng hefð er fyrir.

Guðmundur Helgi Þórarinsson formaður VM, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, flutti ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna og Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusamands Íslands, flutti hátíðarræðuna að þess sinni.

Félagar í Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri sýndu atriði úr söngleiknum um Gosa, Ívar Helgason tók lagið og síðan var boðið upp á kaffi og alls kyns kræsingar á eftir.

Þorgeir Baldursson ljósmyndari fylgdist grannt með hátíðinni í dag.

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, til vinstri, og Guðmundur Helgi Þórarinsson formaður VM, Félags vélstjóra og málmtæknimanna.