Fara í efni
Fréttir

70 herbergja Hilton hótel á Akureyri

Fyrsta alþjóðlega hótelið á landsbyggðinni verður opnað á Akureyri sumarið 2025. Hótelið verður  verður rekið undir merkjum Curio Collection by Hilton og verður nefnt Skáld Hótel Akureyri. Hótelið verður í hluta þeirra bygginga sem nú rísa á svokölluðum Drottningarbraut við Austurbrú.

Það er íslenska félagið Bohemian Hotels ehf. sem stendur að hótelinu skv. samningi við Hilton og þau verða raunar tvö hér á landi því einnig verður opnað hótel í Reykjavík.

Í tilkynningu frá Bohemians Hotels í dag segir meðal annars:

„Bohemian Hotels ehf., í samstarfi við Hilton, tilkynnir með stolti undirritun tímamótasamnings um byggingu og rekstur tveggja hágæða hótela á Íslandi. Þessir samningar marka ákveðin tímamót í hótelgeiranum á Íslandi og færa Akureyri gistingu og þægindi á heimsmælikvarða til jafns við Reykjavík.

„Skáld“ Hótel Akureyri, Curio Collection by Hilton, mun rísa í hjarta miðbæjarins á Akureyri. Stefnt er að opnun sumarið 2025 og mun „Skáld“ Hótel Akureyri bjóða upp á 70 vandlega hönnuð herbergi þar sem nútímaþægindum er blandað saman við menningararfleifð Íslands. Ljóð gefa okkur upplifanir og skilning sem við hefðum svo gjarnan viljað orða sjálf en finnum hins vegar í orðum ljóðskáldsins. Hótelið mun leggja einstaka áherslu á samfélag og menningu“

Samningur um Hilton hótelin í höfn. Fremri röð frá vinstri: Nick Smart, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Hilton á Bretlandi, Írlandi og Norðurlöndunum, Lilja Alfreðsdóttir menningar- og ferðamálaráðherra, Jens Sandholt eigandi Bohemian Hotels og Magnea Þórey Hjálmarsdóttir eigandi Bohemian Hotels. Aftari röð frá vinstri: Þorsteinn Örn Guðmundsson eigandi Bohemian Hotels, Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri Isavia á Akureyrarflugvelli, Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla, Elín Lára Edvards eigandi Bohemian Hotels og Stephan Croix frá Hilton hótelkeðjunni.

Dýrmæt nálgun við ljóðlist

„Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála-, menningar- og viðskiptaráðherra, fagnaði áformum um opnun alþjóðlegs hágæðahótels í höfuðstað Norðurlands og lagði áherslu á að það styddi við Nature Direct, sameiginlega átak ríkisstjórnarinnar og jafnframt áhugaverð og dýrmæt nálgun að gera íslenska ljóðlist aðgengilega fyrir innlenda og erlenda hótelgesti,“ segir einnig í tilkynningunni.

Samningurinn við Hilton nær einnig yfir annað hótel, sem fyrr segir; það verður við Bríetartún í Reykjavík, og verður opnað vorið 2026. „Það mun bjóða upp á hágæða lífsstílsupplifun undir einu af þekktustu vörumerkjum Hilton. Hótelið er við hliðina á sögufrægu Frímúrarahöllinni steinsnar frá hinu líflega Hlemm svæði, sem hefur verið skipulagt sem miðborgartorg.“

„Skáld“ Bohemian Hotels ehf. er í eigu Luxor ehf. og Concordia ehf. Concordia er undir forystu Magneu Þóreyjar Hjálmarsdóttur og Þorsteins Arnar Guðmundssonar, sem búa yfir áratuga sérþekkingu á hótelrekstri og þróun, þar á meðal farsælu samstarfi við alþjóðlega vörumerkið Hilton, segir í tilkynningunni.

„Luxor ehf., undir stjórn Jens Sandholt eiganda og húsasmíðameistara, sem hefur náð framúrskarandi árangri á sviði bygginga- og verkefnastjórnunar, þar á meðal á Reykjavík Marina Hótels. Jens hefur mikinn metnað fyrir uppbyggingu Skáld hótels á Akureyri, Curio Collection by Hilton og telur að Akureyri eigi ekkert minna skilið á þessum tímapunkti en alþjóðlegt hágæðahótel.“

Einstakur áfangastaður

Nick Smart, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Hilton á Bretlandi, Írlandi og Norðurlöndunum, segir: „Ísland er ótrúlega vinsæll ferðamannastaður og við erum spennt að stækka eignasafn okkar á þessum einstaka áfangastað, auk þess að færa fyrsta alþjóðlega vörumerkið í sjálfan höfuðstað Norðurlands. Lífsstílsvörumerki Hilton hafa stöðugt skapað tækifæri til vaxtar á evrópskum mörkuðum
og erum við, í samstarfi við eigendur eins og Bohemian Hotels ehf., spennt að auka enn frekar umsvif okkar á Íslandi.“

Í tilkynningunni segir að Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, taki undir þessi viðhorf og undirstriki jákvæð áhrif alþjóðlegra hótel vörumerkja á þróun áfangastaða og tengimöguleika, sérstaklega á Akureyri.

„Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segist fagna menningarþema Skáld Hótels og möguleikum þess til að efla orðspor Akureyrar sem miðstöðvar menningar og ferðaþjónustu á Norðurlandi en ferðaþjónustan skipti atvinnulíf Akureyrar sífellt meira máli eins og annarra fegurstu þéttbýlisstaða á Íslandi,“ segir að lokum í tilkynningunni frá Bohemian Hotels ehf.